Ríki í Bandaríkjunum lokar á TikTok

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur notið síaukinna vinsælda undanfarin ár.
Samfélagsmiðillinn TikTok hefur notið síaukinna vinsælda undanfarin ár. AFP

Indíana-ríki í Bandaríkjunum hefur tekið þá ákvörðun að loka á samfélagsmiðilinn TikTok á öllum tækjum í eigu stofnana ríkisins.

Fréttastofa ABC greinir frá þessu.

Það var tækniskrifstofa Indíana-ríkis sem lokaði á möguleikann að nota TikTok í kerfum ríkisins, á símtækjum, tölvum og öðrum tækjum í eigu ríkisins í gær. Að sögn upplýsingafulltrúa er þetta gert til að verja heilindi ríkisins. 

Upplýsingar til Kína og ekki öruggt fyrir börn

Ákvörðunin var tekin sama dag og saksóknari Indíana-ríkis höfðaði mál gegn TikTok og gaf samfélagsmiðlinum að sök að villa um fyrir notendum sínum um öryggi upplýsinga neytenda. 

Saksóknarinn hélt því jafnframt fram að samfélagsmiðilinn væri ekki öruggur fyrir fyrir börn vegna óviðeigandi efnis sem er dreift á miðlinum. 

TikTok er í eigu ByteDance sem er kínverskt stórfyrirtæki með höfuðstöðvar í Singapúr. Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum hafa mótmælt samfélagsmiðlinum og halda margir því fram að stjórnvöld í Kína hafi aðgang að upplýsingum bandarískra neytenda. 

Bandaríski herinn hefur jafnframt bannað notkun TikTok á tækjum í eigu hersins jafnt og samfélagsmiðillinn hefur verið bannaður í fulltrúadeild Bandaríkjanna.

mbl.is