Spáin skánar fyrir nýársnótt

Spáin hefur skánað fyrir nýársnótt.
Spáin hefur skánað fyrir nýársnótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurspár fyrir nýársnótt hafa tekið breytingum til góðs. Nú lítur út fyrir að óveðrið, sem talið er að skella seint að kvöldi gamlársdags, standi yfir skemur en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Enn er þó útlit fyrir slæmt veður í nótt.

Lægðarmiðjan verður 50 kílómetrum sunnar en gert var ráð fyrir, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Þó er enn útlit fyrir að veður versni á miðnætti á nýársnótt.

Annað kvöld kemur kröpp og lítil lægð úr vestri og þá skiptir máli hvar hún fer yfir. 

„Breytir heilmiklu“

„Fyrri spár gerðu ráð fyrir að hún kæmi að landinu á Faxaflóa eða við Snæfellsnes. Það hefði haft í för með sér að vindstrengur sunnan lægðamiðjunnar hefði komið beint inn yfir Reykjanes og höfuðborgarsvæðið,“ segir Einar og heldur áfram:

„En nú gera nýjar skýrslur ráð fyrir því að lægðarmiðjan verði aðeins sunnar og það breytir heilmiklu. Vissulega versnar veðrið um miðnætti en það stendur styttra yfir.“

Gul viðvörun í Reykjavík

Þá gæti spáin alltaf hrokkið í fyrra horf en litlu má muna. Fari lægðin örlítið sunnar en nú er spáð, þá myndu sunnanverður Faxaflói og Suðurnes sleppa alfarið við vindrastirnar umhverfis lægðamiðjuna.

Gul viðvörun er í gildi í höfuðborginni á nýársnótt, frá klukkan ellefu um kvöldið til hádegis á nýársdag.

Eftirfarandi skýringarmyndir á veðursíðunni Bliku, sem Einar heldur úti, sýna hvernig lægðarmiðjan hefur færst sunnar í nýrri spá:

Skjáskot/Blika
Skjáskot/Blika
mbl.is