Vara við svifryksmengun um áramótin

Flugeldar á gamlárskvöld.
Flugeldar á gamlárskvöld. mbl/Ómar

Nokkrar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2023 vegna mengunar frá flugeldum og búast má við því að styrkurinn verði yfir heilsuverndarmörkum.

Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Taka á móti flugeldaleifum

„Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi. Flugeldum fylgir líka rusl, sem þarf að koma á réttan stað, annað hvort á endurvinnslustöðvar Sorpu eða hverfastöðvar Reykjavíkurborgar en það er nýjung í ár að þær taki á móti flugeldaleifum,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á að flutt hafi verið inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ári undanfarin ár og er árið í ár þar engin undantekning. Vitnað er í höfunda skýrslunnar Mengun af völdum skotelda:  „Starfshópurinn var sammála um að sú mengun sem oft verður um áramótin af völdum skotelda hefur óæskileg áhrif á heilsu margra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál.“

„Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Hægt er að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir rótarskotin gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntur um land allt næsta sumar sem stuðlar að betri loftgæðum og dregur úr gróðurhúsaáhrifum,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Síðasta áratug hefur 21 einstaklingur slasast af völdum flugeldanotkunar á höfuðborgarsvæðinu og einn hlotið varanlegt heilsutjón að meðaltali á hverju einasta ári.

Kettir inni og hundar í ól

„Hávaði vegna flugelda verður oft mikill, sérstaklega frá stórum skotkökum og því eru gæludýraeigendur í borginni hvattir til að huga vel að dýrum sínum. Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim er hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.“

Fólk er jafnframt hvatt til að fylgjast með veðurspám. Best sé að nýta daginn til að klára að útrétta fyrir áramótin. Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að nýja árið heilsi líklega með vestanátt og éljum.

Tíu áramótabrennur verða í Reykjavík. Fyrir hádegi á gamlársdag er veðurspá skoðuð og ákvörðun tekin um hvort það megi tendra um kvöldið. Brennur eru ekki tendraðar ef vindhraði fer yfir 10 m/s.

mbl.is