Nóttin var rólegri hjá björgunarsveitum en búist var við og lítið var um útköll, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
„Á höfuðborgarsvæðinu hefur þetta verið rólegt og mér sýnist þetta hafa verið rólegt um allt land,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til klukkan 15 í dag og gular viðvaranir eru á suðvesturhorninu til hádegis á morgun.
„Það voru gerðar léttar ráðstafanir í gær til þess að tryggja að stærri tæki eins og snjóbílar væru klár og þá með hugsanlegum flutningi milli landssvæða, en það virðist ekki hafa komið til þess enn þá,“ segir Jón Þór.