Veðurfar kom almannavörnum skemmtilega á óvart

Veður var með mildara móti í dag þó úrkoma hafi …
Veður var með mildara móti í dag þó úrkoma hafi verið nokkur. mbl.is/Arnþór

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra aflétti óvissustigi vegna óveðurs núna síðdegis en Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri deildarinnar, segir starfsfólk ánægt með þær ráðstafanir sem gerðar voru vegna spárinnar.

Eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa flestir orðið varir við hefur spá um fárviðri ekki gengið eftir. Vind hefur lægt en þó er ennþá útlit fyrir að úrkoma verði nokkur í kvöld. Í kjölfar þessara fregna færði almannavarnadeild ríkislögreglustjóra viðbragðsstig niður á óvissustig.

Spár gangi ekki alltaf eftir

„Þetta voru spár sem við erum alltaf að vinna eftir. Svo fara þær ekki alltaf eins og veðurfræðingar halda, stundum er það frábært stundum ekki. Núna frábært fyrir okkur ölll og þá sérstaklega fyrir kvöldið í kvöld,“ segir Hjördís í samtali við mbl.is í dag. 

Margir fóru í nauðsynleg ferðalög og útréttingar í gær vegna þeirra viðvarana sem yfirvöld gáfu út um veðurfar dagsins í dag en Hjördís telur það eiga þátt í því hve átakalaus dagurinn í dag varð í reynd.

Ekki komið til lokana á Reykjanesbraut

Hjördís sagði almannavarnardeildina hafa haft sérstakan augastað á Reykjanesbrautinni og mögulegum lokunum á henni sem ekki varð af með tilheyrandi tjóni fyrir ferðalanga og ferðaþjónustuna í heild sinni. 

Að sögn Hjördísar er ekki útlit fyrir að til lokana þurfi að koma á brautinni þar sem spár geri ekki ráð fyrir meiri vindum heldur eingöngu aukinni snjókomu sem er einfaldara að eiga við. 

Hjördís bendir á að upplýsingar um lokanir og færð vega megi nálgast í rauntíma á umferdin.is og road.is. 

Hófu árið og ljúka því með hvelli

Þar sem óvissustigi hefur verið aflétt hefst nýja árið án nokkur viðbúnaðarstigs sem er öðruvísi en áður þar sem heimsfaraldur Covid-19 herjaði enn á landann í upphafi þess árs sem nú líður.

„Við byrjuðum árið með Covid og endum það með hvelli, við þurfum alltaf að vera að minna á okkur“ segir Hjördís.

mbl.is