Vetrarþjónustan 1,2 milljarða fram úr áætlun

Reykjanesbraut var lokuð í einn og hálfan sólahring rétt fyrir …
Reykjanesbraut var lokuð í einn og hálfan sólahring rétt fyrir jól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri segir það hárfína línu að loka vegum á réttum tíma, en það þarf að gerast áður en aðstæður verða þannig að bílar festast og tefja fyrir mokstri og opnun vega á nýjan leik. Unnið sé eftir ákveðnum ferlum sem taki mið af því fjármagni sem Vegagerðin hefur til umráða.

Aldrei sé hægt að koma alveg í veg fyrir að vegir lokist en hún segir því nú velt upp hvort Vegagerðin hefði mátt hafa hraðari hendur þegar Reykjanesbrautin lokaðist um jólin.

Hún telur tækjakostinn nógu öflugan, spurning sé frekar hvort þurfi meira af tækjum og fleira fólk á bakvakt.

Vegagerðin sé tilbúin í samtal um breytingar á kerfinu, en eigi að auka þjónustuna þurfi meira fjármagn.

Kostnaður við vetrarþjónustu Vegagerðarinnar fór 1,2 milljarða framúr áætlunum á nýliðnu ári þrátt fyrir að unnið hafi verið innan skilgreindra verkferla.

„Staðan á vetrarþjónustu fjárhagslega er sú að við höfum áætlað fyrir þetta 3,8 milljarða en við vorum á árinu sem var að líða að eyða 5 milljörðum áætlað. Sem er innan þessara skilgreindu verkferla sem við erum að vinna eftir. Þannig það sér hver maður að það er ekki af neinu að gefa,“ segir Bergþóra í samtali við mbl.is

„Við vinnum eftir skipulögðum ferlum og þessir ferlar taka mið af því fjármagni sem við höfum og þeim vetrarþjónustureglum sem eru samþykktar af ráðherra,“ segir hún jafnframt.

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri segir Vegagerðina vinna eftir ferlum sem taki …
Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri segir Vegagerðina vinna eftir ferlum sem taki við af því fjármagni sem stofnunin hafi til umráða. mbl.is/Sigurður Bogi

„Er einhver tilbúinn að borga?“

„Þetta er ákveðið kerfi sem virkar þannig að við höfum átján starfsstöðvar um allt land. Við erum með eftirlitsmenn á okkar kerfum, við erum með ákveðinn viðbúnað sem heitir samningar við verktaka og tækjakostur. Síðan erum við með vaktstöð sem samhæfir þetta viðbragð allt saman og svo erum við með viðbótarverktaka, samninga við verktaka sem eru ekki að vinna fyrir okkur alla daga heldur eru tilbúnir að hlaupa inn þegar mikið brennur, eins og hefur verið verið.“

Um er að ræða 300 til 400 manna teymi sem sinnir vetrarþjónustunni þegar allt er talið og mikið er undir, að sögn Bergþóru. Sólahringsvakt er á svæðunum í kringum höfuðborgarsvæðið, en þjónustustig er mismunandi á öðrum svæðum. Á Suðurlandi, í kringum Vík í Mýrdal, er til að mynda unnið í 16 tíma á sólarhring.

„Menn eru alltaf að með þessi tæki. Öll okkar tæki hafa verið í vinnu síðan ég veit ekki hvenær. Þetta er kerfið eins og það er. Svo geta menn spurt hvort menn vilji breyta þessu kerfi og það er umræða sem þarf að taka. Það er hægt að eiga stærri tæki og meira af stórum tækjum og fleira fólk á bakvakt. Það kostar peninga. Þá er það væntanlega orðið eitthvað mat, hversu mikið gagn er af því miðað við hvað það kostar. Er einhver tilbúinn að borga? Það er eitthvað sem mér finnst mjög áhugavert samtal að taka,“ segir Bergþóra.

„Síðan er það samhæfingarmiðstöð Almannavarna, hvernig hún er samsett og hvernig hún virkar. Við eigum þar fulltrúa. Eftir þetta Reykjanesbrautarævintýri, þá held ég að allir sem eru þar að störfum að velta fyrir sér; hefði verið hægt að gera þetta betur eða hraðar eða skilvirkar? Við erum ekki undanskilin í því. Við erum líka að velta fyrir okkur hvort við hefðum getað verið hraðari.“

Víða var veður vont yfir jólin og loka þurfti vegum, …
Víða var veður vont yfir jólin og loka þurfti vegum, meðal annars við Vík í Mýrdal. Ljósmynd/Víkverji

Funda með ferðaþjónustunni á morgun

Hún telur að ekki sé hægt að koma alveg í veg fyrir að vegir lokist. Stundum sé veður þannig að ekki einu sinni vanir mokstursmenn treysti sér af stað.

„Ef það er svo vitlaust veður, eins og það var í Vík í Mýrdal, að hefilstjóri á snjóruðningstæki treysti sér ekki til að fara frá gatnabrún og heim til sín, á vegi sem hann gjörþekkir, þá getur maður alveg sagt sem svo að þá hefur ferðamaður í leigðum bíl, í aðstæðum sem hann hefur aldrei séð áður, ekkert að gera á þeim vegi. Þetta snýst um hvað getum við verið hröð að opna þegar allur þessi mikli snjór er á veginum.“

Vegagerðin hyggst á morgun fá til sín í aðila úr ferðaþjónustunni til að fara yfir stöðuna. „Við viljum gjarnan heyra hvaða viðbragð myndu þeir halda að væri ásættanlegt. Þá getum við reynt að setja verðmiða á það og lagt það inn í umræðuna.“

Allt þjónustustig hefur takmarkanir

Bergþóra segir að allt þjónustustig hafi þó sínar takmarkanir. Það væri alveg sama þó viðbúnaður yrði aukinn, það kæmi alltaf að einhverjum takmörkunum, að minnsta kosti útfrá sjónarhorni þeirra sem njóta þjónustunnar.

„Við getum tekið sem dæmi tvo vetur á Hellisheiðinni; annan veturinn, ekki í fyrra heldur árið þar áður, þá keyrðum við 100 þúsund kílómetra en í fyrra keyrðum við tæplega 260 þúsund kílómetra. Þar erum við bara að vinna eftir þessum skilgreiningum og við höldum áfram og áfram en menn voru samt mjög ósáttir við að heiðin lokaði, en þannig var árferðið þá.“

Aðspurð hvort tækin sem notuð eru séu nógu öflug telur Bergþóra svo vera: „Við erum með stórvirk tæki. Við erum með stóra vörubíla sem eru með tönn framan á svo búnaði til að dreifa hálkuvarnarefni. Ég held að tækin sem slík séu ágæt og við höfum endurnýjað þau ótt og títt. En spurning er eiga þau að vera fleiri eigum við að vera með meira af blásurum. Þetta er kostnaðarsamt og það er erfitt að sjá þann kostnað fyrir.“

Lokað of seint og 100 bílar fastir

Hvað varðar þá gagnrýni að gripið hafi verið til lokana of snemma, til dæmis á Reykjanesbrautinni, segir Bergþóra að ákvörðun um lokun í því tilfelli hafi verið tekin af vönum eftirlitsmanni.

„Reykjanesbrautin lokaði um miðja nótt. Ég hef lesið greinargerðina frá þeim eftirlitsmanni og það var mjög reyndur eftirlitsmaður á vakt, ég held að hann hafi tekið ágætar ákvarðanir.

En það sem maður getur sagt er að þetta er hárfín lína. Þegar við lokum of seint, við gerðum það í einu tilfelli á Hellisheiðinni, þá voru aðstæður þannig að það var afleit spá og við ætluðum að loka á ákveðnum tímapunkti. Þegar sá tímapunktur kom þá fannst þeim eftirlitsmanni að veður væri enn ágætt og það dróst um klukkutíma að loka. Þá voru hundrað bílar fastir á heiðinni. Þá erum við að seinka opnum um marga klukkutíma því það þarf að fjarlægja alla þessar bíla.

Við reynum að meta það þannig við lendum ekki í einhverju svoleiðis. Af því er líka slysahætta, tjón, óþægindi og erfiðleikar, en ekki samt fyrr heldur en við þurfum. Þetta er ein snúnasta ákvörðun sem við tökum.“

Erum meira á ferðinni en við vorum

Hún segir að þau hjá Vegagerðinni hafi skilning á að ferðaþjónustan sé að reyna að halda úti þjónustu og viðskiptum við mjög erfiðar aðstæður um hávetur. Það sé stefna Íslands að bjóða landið sem áfangastað allt árið um kring og Vegagerðin sé tilbúin að taka þátt í samtali um hvernig það megi best verða.

„Í dag erum við að vinna eftir ákveðnu kerfi með ákveðið fjármagn. Ef menn vilja breyta því þá þarf umgjörðin að breytast líka. Við erum alveg tilbúin að taka þátt í því samtali og þeim breytingum ef það verður niðurstaðan.“

Það hlýtur þá að liggja fyrir að það þarf aukið fjármagn?

„Það er alveg ljóst að það er mikið ákall um aukna vetrarþjónustu. Ekki bara frá ferðaþjónustunni heldur líka frá sveitarfélögum hringinn í kringum landið þar sem atvinnuuppbygging er að verða. Það kallar á aukna vetrarþjónustu. Við erum miklum meira á ferðinni en við vorum.“

mbl.is