Gætu þurft að loka íþróttahúsum

Snjó hefur kyngt niður í Árborg og er kuldatíðin farin …
Snjó hefur kyngt niður í Árborg og er kuldatíðin farin að hafa áhrif á framboð af heitu vatni. Myndin er frá Eyrarbakka. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúa Árborgar er farið að lengja eftir opnun útisvæða sundlauga en þau hafa staðið lokuð í tæpan mánuð. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, segir opnun útilaugarinnar ekki í sjónmáli og ef kuldatíðin ílengist gæti jafnvel komið til þess að íþróttahúsum verði lokað. 

Aðgerðaráætlun hjá Selfossveitum var virkjuð 8. desember eftir að tjón varð á búnaði í bruna sem skerti orkuöflun. Samhliða þessu hefur kuldatíðin í desember og janúar aukið eftirspurn eftir heitavatninu umtalsvert líkt og víða annars staðar á landinu.

Til að bregðast við var m.a. gripið til þeirra ráða að lækka hita í gervigrasvöllum og Selfosshöllinni, og loka/skerða þjónustu í sundlaugum í sveitarfélaginu.

Innisvæði og sauna í Sundhöll Selfoss hafa verið opnuð á ný en útisvæði sundlauga eru enn lokuð. 

„Við sjáum ekki fyrir endann á þessu fyrr en það fer að hlýna aftur,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Á fyrstu stigum appelsínuguls

Aðgerðaráætlunin sem virkjuð var í desember skiptist í þrjá fasa; gulan, appelsínugulan og rauðan. 

„Við erum á fyrstu stigum appelsínuguls. Við erum með nokkra hluti sem að við reynum að fara í gegnum. Við hvetjum líka íbúa til þess að fara vel með heitt vatn. Næsta skref er hreinlega að loka íþróttahúsunum. Við vonumst til að þurfa ekki að fara þangað.“ 

Fylgjast grannt með notkun eftir opnun skólanna

Þrátt fyrir mikið álag á hitaveitukerfið yfir jólin varð enginn íbúi var við skort, að sögn Sigurðar. Mátti það annars vegar þakka aðgerðaráætluninni og hins vegar lokun skólanna yfir hátíðarnar.

„Það var hægt að keyra skólana aðeins niður í hita sem sparaði töluvert. Það var vatn á öllum íbúum, það varð enginn íbúi var við skort á heitu vatni en lokun skólanna hjálpaði heilmikið til.

Núna eru allir skólar að byrja aftur og við fylgjumst mjög grannt með því hvernig heitavatnsnotkunin þróast. Við erum að meta stöðuna dag frá degi en á meðan að staðan er svona þá þarf útisvæðið að vera lokað.“

mbl.is