Að undanförnu hafa frí í kringum jól og áramót verið til umfjöllunar. Athygli vekur að alþingismenn fá langt frí frá þingfundum en haustþinginu lauk 16. desember og næsti þingfundur er á dagskrá 23. janúar. Þingmenn mæta þó fyrr vegna nefndafunda.
„Um langt árabil hefur þingið hafið störf aftur eftir jól um miðjan janúar. Síðustu árin hefur verið byrjað á nefndaviku eins og gert er ráð fyrir núna. Fundir í þingnefndum hefjast í vikunni sem byrjar 16. janúar og þingfundir hefjast 23. janúar. Eru þetta svipaðar tímasetningar og verið hafa undanfarin ár. Þinginu lauk fyrir jól 16. desember í þetta skiptið og það er með fyrra fallinu miðað við síðustu ár,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og bendir á að erfitt sé að bera það saman við árið 2021.
„Þá kom þingið saman miklu seinna út af kosningum um haustið og þá voru þingfundir á milli jóla og nýárs. Það voru mjög sérstakar aðstæður. Frá 2011 hefur þinghaldinu verið skipt í þrjú tímabil. Haustþing er frá því þing kemur saman aðra vikuna í september og stendur fram að jólum. Vetrarþing hefur verið frá miðjum janúar og fram að páskum. Vorþing hefst eftir páska og er fram í júní. Þetta getur verið breytilegt frá ári til árs en samkvæmt starfsáætlun er skipulagið núna með hefðbundnu sniði hvað þetta varðar.“
Birgir segir að samkvæmt þeim athugunum sem Alþingi hefur gert þá séu þingfundadagar yfir árið oftast álíka margir hér og hjá þjóðþingum í nágrannalöndunum. Algengt sé að virkir þingfundadagar séu einhvers staðar á bilinu 110 til 130 dagar á ári og eru þá sérstakir nefndadagar, kjördæmadagar og þingflokksfundadagar ekki taldir með.
„Hér er heildarfjöldi þingfundadaga svipaður og í nágrannalöndunum þótt það geti skipst með mismunandi hætti yfir árið í þessum þingum. Fjöldi þingfundadaga á þessu þingi verður svipaður og verið hefur í meðalári, ef miðað er við starfsáætlun.”
Sá tími sem skapast þegar ekki eru nefndar- eða þingfundir getur nýst þingmönnum á ýmsan hátt að sögn Birgis en segir afskaplega misjafnt hvernig þingmenn kjósi að nýta tímann.
„Alþingismenn eru í vinnu allt árið þótt þingfundir standi ekki yfir. Menn eru í alls konar verkefnum eins og undirbúningi vegna lagafrumvarpa og annarra þingmála, margvíslegum samskiptum við kjósendur, fundarhöldum af ýmsu tagi, greinaskrifum og fleiri slíkum verkefnum. Þingmenn hafa talsvert svigrúm til að velja hvernig þeir sinna starfinu, hvernig þeir forgangsraða verkefnum og þess háttar, en svo kemur alltaf að því við lok kjörtímabils að þeir þurfa að standa fyrir framan kjósendur og útskýra hvað þeir hafa verið að gera.”
Birgir bendir á að þingmannsstarfinu fylgi gjarnan miklar vinnulotur. Þegar mikið er um að vera í þinginu er unnið um helgar, á kvöldin og stundum fram á nótt. Hann segir að oft hafi komið til tals að dreifa mætti álaginu betur yfir árið.
„Við og við kemur upp umræða í þinginu að rétt væri að dreifa álaginu meira yfir árið. Starfið hefur tilhneigingu til að verða lotukennt með mikilli næturvinnu og helgarvinnu á ákveðnum tímabilum. Sérstaklega fyrir jólin og fyrir þinglok á vorin eins og þekkt er. Þar af leiðandi hefur skapast umræða um að dreifa álaginu meira en það hefur gengið misjafnlega. Stundum hefur okkur tekist vel upp í þeim efnum og stundum ekki.
Það má segja að þegar unnið er að starfsáætlun er alltaf farið af stað með þau markmið að öll mál komi nægilega snemma fram til að þau fái viðunandi málsmeðferð á eðlilegum tíma. Reynslan er hins vegar sú að dagarnir verða býsna langir þegar líður að þinglokum og dagarnir strangir, þótt alltaf sé stefnt að því að jafna vinnuálagið,“ segir Birgir Ármannsson í samtali við mbl.is.
Rétt er að taka fram að þessi umfjöllun á við um alþingismennina sjálfa, hina kjörnu fulltrúa. Fjöldi fólks starfar á Alþingi sem fær frí í kringum jól og áramót í samræmi við það sem tíðkast á flestum vinnustöðum.