Má gefa fuglunum alla matarafganga

Kuldatíðin er erfið fyrir marga fugla og er þetta sérstaklega …
Kuldatíðin er erfið fyrir marga fugla og er þetta sérstaklega slæmt núna, frostið, snjórinn og allt sem því fylgir. Ljósmynd/Árni Sæberg

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur, segir kuldatíðina vera erfiða fyrir marga fugla. Þetta sé sérstaklega slæmt núna þar sem nú sé mikið frost og snjór. Hann kveðst litlu sem engu henda enda megi gefa fuglunum allan mat.

„Þeir eiga að vera vanir þessu og þola þetta en sumir þola þetta betur en aðrir. Tjaldur og Stelkar eru til dæmis farnir að vera meira hérna á veturna og sækja mikið í fjöruna, hana leggur ekki og þar hafa þeir æti þannig þeir reyna að bjarga sér,“ segir Jóhann.

Spurður hvernig gæsir og aðrir fuglar sem eru á tjörnum víðs vegar um bæinn hafa það segir Jóhann þá sækja meira til mannsins en venjulega.

„Þetta eru fuglar sem eru svolítið að svindla, gæsirnar og tjarnarfuglarnir. Það þarf að gefa þeim þar sem þeir komast ekki í gras en það er þá helst í lækjum og skurðum. Þær sækja meira núna til mannsins en venjulega,“ segir Jóhann.

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur.
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur. Eggert Jóhannesson

Minni matarsóun að gefa fuglunum afganga

Flestir gefa fuglunum brauð eða annað kornmeti og segir Jóhann að það sé gott en hafa megi í huga að það megi gefa þeim alla matarafganga. Hann hendir nánast engu og segir það vera góða leið gegn matarsóun að gefa fuglunum afganga.

„Það má gefa allan mat og því sniðugt að gefa þeim afganga, þú átt ekki að henda neinu. Ef ég á fitu og kjötafganga þá gef ég það. Þrestirnir eru til dæmis mjög hrifnir af eplum og ávöxtum en þó þarf að passa að hafa hýðið ekki á. Það er hægt að gefa þeim allt mögulegt,“ segir Jóhann.

mbl.is