Spilliblota spáð á sunnudag

Sex tíma úrkomuspá fyrir klukkan 21 á sunnudag.
Sex tíma úrkomuspá fyrir klukkan 21 á sunnudag. Skjáskot/Veðurstofan

Allt lítur út fyrir að áfram verði fremur kalt á landinu, fram á laugardag. Breytingum er þó spáð eftir það.

Frá þessu greinir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á veðurvefnum Bliku. Bendir hann á að á morgun muni lægð dýpka nokkuð ört langt suðvestur í hafi.

Með þessari víðáttumiklu lægð verði komandi helgi á Bretlandseyjum einkar rigningarsöm og mild. Þá verði aftur óvenju hlýir dagar í Vestur-Evrópu.

„Áhrifa hennar kemur ekki til með að gæta hér á landi með beinum hætti. Helstu vindrastir umhverfis lægðarmiðjuna ná ekki hingað til lands og heldur ekki skil lægðarinnar. Hins vegar eru óbein áhrif hennar umtalsverð,“ skrifar Einar.

„Lægðin ryður til norðausturs heilmiklu af mildara lofti hér á milli Íslands og Noregs. Það fyrirferðarmikið að milda loftið nær um stund að bægja héðan frá kalda loftinu lengra í áttina til Noregs um stund. Því hlánar hér á landi og einkum um austanvert landið, þar verður líka á ferðinni á sunnudag lægðardrag með úrkomu, nokkurs konar afsprengi móðurlægðarinnar sem þá verður við Skotland.“

Rignir hraustlega á sunnudag

Telur Einar að rigna muni norðaustantil, nokkuð hraustlega, í um 4-5 gráða hita á láglendi.

Vestan- og suðvestantil nái hitastigið 1-4 gráðum og með allhvössum norðaustan- eða jafnvel norðanvindi.

Enn fremur ræður hann af gögnum að þetta milda loft komi svo sannarlega aftur að Íslendingum síðdegis á sunnudag.

„Eftir sunnudaginn fer veður aftur kólnandi. Áfrif þessa milda lofts fjara síðan út. Hægt og bítandi frystir aftur. Heimskautaloftið bíður líka átekta með að breiða úr sér á nýjan leik suður yfir landið.“

Segja má því að líklega verði spillibloti á sunnudag, en svo nefnist það þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær allur að bráðna.

Í umfjöllun Trausta Jónssonar veðurfræðings frá árinu 2013 segir að spillibloti hafi á fyrri tíð verið eitt það óvinsælasta veðurlag á Íslandi. 

„Og er svo enn,“ skrifaði Trausti.

mbl.is