Grænslenska uppsjávarskipið Polar Ammassak hélt til loðnuveiða á fimmtudag og hóf veiðar 80 sjómílur norðaustur af Langanesi á föstudag 6. janúar.
„Við erum einskipa og höfum ekkert leitað. Við fundum torfu, köstuðum og höfum síðan verið að veiðum á sömu slóðum allan tímann,“ segir Sigurður Grétar Guðmundsson, skipstjóri á Polar Ammassak, í færslu á vef Síldarvinnslunnar.
„Við byrjuðum á 100 tonna holi en síðan höfum við fengið 300 – 350 tonn í hverju holi. Holin eru orðin fimm og dregið hefur verið í 6 til 10 tíma. Við erum komnir með tæp 1.400 tonn og þetta er fallegasta loðna. Það eru 35 til 37 stykki í kílóinu,“ segir hann.
Þá séu „blettir að sjá“ og engar risatorfur að sjá en þær sem finnast skila góðum afla að sögn Sigurðar. „Það er meiri veiði yfir nóttina en á daginn. Það er eins og loðnan þétti sig í myrkrinu. Veðrið hefur verið með ágætum, það var kaldi í eina nótt en annars bara gott veður.“
Áhöfninni vantaði í morgun um 500 tonn til að fylla skipið og reiknar skipstjórinn með að landa hjá Síldarvinnslunni á morgun. „Mér finnst þessi loðnuvertíð bara líta býsna vel út og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn,“ segir Sigurður.