Snjóflóðahætta á vegum en ekki í byggð

Siglufjarðarvegur við Strákagöng í morgun.
Siglufjarðarvegur við Strákagöng í morgun. Ljósmynd/Vegagerðin

Ekki er búist við hættu í byggð af völdum snjóflóða á Vestfjörðum og á Norðurlandi en flóð geta fallið á vegi.

Þetta segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur í ofanflóðum hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í horfurnar í dag vegna snjóflóðahættu.

Meiri hætta er á snjóflóðum á Norðurlandi, en þar hefur verið meira um úrkomu og flóð. Lítill snjór var aftur á móti fyrir vestan áður en veðrið skall á og þar hefur úrkoman verið minni en búist var við.

„En þetta er ekki búið alveg,“ segir Óliver og reiknar með viðvarandi norðanátt í allan dag, aðallega fyrir norðan. Þar er spáð mestri úrkomu á utanverðum Tröllaskaga.

Töluvert frost um miðja viku

Á morgun er spáð mun skaplegra veðri á landinu öllu. Éljagangur verður meiri og hægari vindur bæði á morgun og áfram í vikunni. Útlit er fyrir að hæðarhryggur frá Grænlandi komi til landsins með kulda. Reiknar Óliver með töluverðu frosti á landinu um miðja vikuna og lítilli úrkomu.

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Ekkert varðskip í Dýrafirði

Varðskipið Þór var í Dýrafirði í gærkvöldi og í nótt, viðbragðsaðilum til halds og trausts. Það var síðan kallað út í morgun vegna flutningaskipsins EF AVA sem varð vélarvana vestur af Reykjanesskaga.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, óskaði lögreglan á Vestfjörðum ekki eftir því að skipið sigldi aftur til Dýrafjarðar.

mbl.is