Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, segir að til þess að þjónusta veitnanna komist í venjulegt horf þurfi lofthiti að vera að minnsta kosti í kringum frostmark samfellt í einhvern tíma.
Útilaug Sundhallar Selfoss var opnuð í fyrradag eftir að hafa verið lokuð í rúman mánuð. Enn eru heitir pottar og vaðlaugar lokaðar á útisvæði.
„Við vildum reyna að tryggja skólasundið og við sáum fram á að við gætum opnað útilaugina þar sem það hlánaði svolítið um helgina. Það safnaðist aðeins í hitaveitusvæðunum okkar,“ segir Sigurður Þór í samtali við mbl.is.
„Við metum stöðuna dag frá degi og erum að reyna að halda uppi sem mestri þjónustu við íbúana og pössum okkur á að halda okkur öruggum megin til þess að það sé alltaf nóg til húshitunar.“
Sigurður segir að jólafrí í skólum á Selfossi hafi haft mikið að segja til þess að spara heitt vatn með minni kyndingu í skólunum en 20 stiga frost mældist á milli jóla og nýárs.
„Desembermánuður var fordæmalaus í kulda liggur við. Plús þessi bilun sem við lentum í í byrjun mánaðarins.“
„Nú er búið að opna alla skóla og þetta virðist nú vera alveg í góðu lagi núna. Við getum alltaf gripið aftur til þessara aðgerða að loka lauginni ef við þurfum á því að halda.“