Chris Harrison, fyrrverandi stjórnandi raunveruleikaþáttanna The Bachelor og Bachelorette, hefur opnað sig um það hvernig honum leið þegar hann ákvað að stíga til hliðar sem stjórnandi þáttanna og að lokum hætta í sjónvarpi.
Harrison hætti í kjölfar þess að hann fékk á sig harða gagnrýni fyrir að verja einn keppanda þáttanna, Rachael Kirkconnell, en hún hafði verið sökuð um kynþáttafordóma.
„Ég léttist um níu kíló. Ég svaf ekki. Ég borðaði ekki,“ sagði Harrison í nýjum hlaðvarpsþætti að því fram kemur á vef Entertainment Weekly. „Þetta var bara hvert höggið á eftir öðru og líkamlega og andlega ástandið á mér versnaði hratt,“ sagði hann.
Harrison var niðurbrotinn og sorgmæddur. „Ég var reiður sjálfum mér. Ég olli sjálfum mér vonbrigðum. Það síðasta sem ég vildi var að vera í farabroddi fyrir eitthvað neikvætt – hvort sem það hefur með kynþátt eða eitthvað annað að gera,“ segir Harrison.
Ástandið varð fljótt slæmt og ljósmyndarar mættu fyrir utan húsið hjá Harrison og unnustu hans. Til þess að komast út fór hann niður brekkuna bak við húsið sitt, í gegnum garð nágranna síns og þar náði félagi hans í hann. Í fyrstu steig Harrison til hliðar sem stjórnandi þáttanna en að lokum ákvað hann að hætta alveg í þáttunum til þess að jafna sig og koma lífinu í samt lag á ný.