Á síðasta ári lögðu margir land undir fót eftir erfiðan heimsfaraldur sem gerði öll ferðalög erfiðari en þau ættu að vera. Nú er nýtt ár gengið í garð og margir halda því fram að síðasta ár hafi verið gott æfingaár. Margir hættu sér ekki lengra en til Tenerife og sýna þarf því fólki ákveðinn skilning.
Nú er hins vegar fólk komið aftur í ferðagírinn og hættir sér ef til vill frekar út fyrir þægindaramman hvað ferðalög varðar. Nú verður gefið í og farið á framandi slóðir (eða að minnsta kosti láta sig dreyma um það). Ferðavefur Mbl.is tók til tvö flott hótel á framandi og suðrænum slóðum sem gaman væri að heimsækja einhvern daginn.
Púertó Ríkó er kannski ekki hinn dæmigerði áfangastaður Íslendinga en hann hefur upp á mörg spennandi hótel í suðrænu umhverfi að bjóða.
Hótelið Finca Victoria er uppi á hæð á karabísku eyjunni Vieques sem er austan við Púertó Ríkó. Þar er ferskur sjávargustur, sígrænn gróður og nánast engin mengun sem þýðir að þar er mjög stjörnubjart á kvöldin. Ferðasérfræðingur Forbes sagði þetta eitt af bestu hótelum sem hann hefði dvalið á árið 2022.
Hvert herbergi er smekklega innréttað í sígildum og nútímalegum sveitastíl þar sem grófur viður ræður ríkjum.
Hótelið hefur mjög umhverfisvæna og heilsumiðaða stefnu. Þar eru ayurveda í hávegum haft og boðið upp á jóga og aðra heilsutengda viðburði. Á boðstólum er grænkeramatur ræktaður í görðum hótelsins.
Nóttin á Finca Victoria er í kringum 50 þúsund krónur. Hægt er að fljúga þangað annaðhvort beint frá alþjóðlega flugvellinum í San Juan eða frá innanlandsflugvellinum og tekur flugið stuttar 30 mínútur. Útsýnið úr vélinni á að vera dásamlegt.
Hægt er að fljúga til Púertó Ríkó frá New York og er flugtíminn tæpir átta klukkutímar.
Paradero var valið eitt besta hótelið í Mexíkó af ferðaritinu Conde Nast Traveller. Áhugafólk um arkitektúr ætti að hafa einstaklega gaman af að dvelja þar en hótelið er í brútalískum stíl. Hannað af Ruben Valdez og Yashar Yektajo.
Hótelið er staðsett fjarri glys og glaums borgarlífsins en það er í klukkutíma akstursfjarlægð frá hinum vinsæla ferðamannastað Cabo.
Þótt hótelið sé í Mexíkó er nóttin þar ekki ókeypis en hún kostar í kringum 100 þúsund krónur. Flogið er til San José del Cabo (SJD). Auðvelt er að fljúga til Mexíkó í gegnum Bandaríkin þar sem framboð flugsæta er mikið.