Förum vel með varmann

Frost gæti orðið meira en 20 stig þegar mest lætur …
Frost gæti orðið meira en 20 stig þegar mest lætur um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið kuldakast er í kortunum. Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, má búast við að mjög kalt verði á morgun og á sunnudag.

Frost geti orðið meira en 20 stig víða inn til landsins.

„Til að mynda fyrir norðan og í uppsveitum Suðurlands. Á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir allt að 10-14 stiga frosti en viðbúið er að það verði enn kaldara veður á svæðum á borð við Víðidal og Kópavogsdal.“

Mikið frost var í Víðidal milli jóla og nýárs. Búist …
Mikið frost var í Víðidal milli jóla og nýárs. Búist er við svipuðum aðstæðum um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvílum pottinn í kuldanum

Veitur reikna með mikilli notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í slíkri kuldatíð en á vef Veitna segir að ef veðurspár gangi eftir gæti spurn eftir heitu vatni orðið 20 þúsund rúmmetrar á klukkustund.

Vegna álags á hitaveituna gætu íbúar á einhverjum svæðum höfuðborgarsvæðisins því fundið fyrir lægri þrýstingi en Veitur forgangsraða alltaf heitu vatni til húshitunar.

Veitur hvetja fólk til að fara vel með varmann, athuga með þéttingar á gluggum og hurðum, tryggja að hitakerfið virki rétt og láta ekki renna í heita pottinn á allra köldustu dögunum.

Kuldakast er í kortunum.
Kuldakast er í kortunum. Samsett mynd

Hollráð í kuldatíðinni

Óli Þór vill jafnframt minna fólk á nokkur atriði. Þeir sem eru með minna einangrað húsnæði og með rennandi vatn ættu að huga að því að láta seytla svo það frjósi ekki í lögnum því þá geta þær sprungið.

Skynsamlegt er að fólk búi sig almennt vel því sums staðar má búast við næðingi með frostinu. Þá er viðbúið að loftmengun verði meiri í froststillunum.

mbl.is