Breytingar í vændum í veðrinu

„Flestar spár eru sammála um að breytingar séu í vændum,“ …
„Flestar spár eru sammála um að breytingar séu í vændum,“ segir Einar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frostharkan sem ríkt hefur að undanförnu á landinu víkur fyrir hlýrra lofti að austan undir lok vikunnar. Lítur út fyrir að úrkomubakki fari þá yfir landið, fyrst í formi snjókomu, síðan slyddu og loks rigningar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir flestar spár vera sammála um að breytingar séu í vændum. Enn eigi þó eftir að koma í ljós hversu mikil ofankoman verði og í hvaða formi.

„Gert er ráð fyrir breytingum á miðvikudag. Snjókomubakki verður undanfarinn og kemur hann úr vestri og suðvestri. Snjóar þá um kvöldið um landið suðvestan- og vestanvert í fremur hægum vindi og dregur jafnframt úr frosti. Óljóst er enn hverju þessi bakki skilar,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Alls ekki djúp lægð

„Á eftir er bylgja af mildara lofti sem ættað er langt úr suðvestri, frá hafsvæðum austur af Nýfundnalandi. Þar er sérlega milt þessa dagana,“ segir Einar. Miðað við spár telur hann líklegt að slydda verði á fimmtudag og síðan rigning. 

Í Reykjavík er spáð fimm stiga hita á föstudag. Samkvæmt þessari sömu spá hlánar um land allt upp í 200 til 500 metra hæð yfir sjávarmáli norðan til. 

„Á miðnætti á föstudag sýnir spákort líka lægð, en alls ekki djúpa, við suðvestanvert landið. Það eru því ekki horfur á verulegri veðurhæð með þessu, en hlákukaflinn verður að teljast nokkuð líklegur,“ segir Einar. 

Hann segir það skýrast betur á morgun og þriðjudag hversu ákafur þessi bloti verði.

mbl.is