Flæðir yfir veginn í Ósabotna

mbl.is/Óttar

Ölfusá flæðir yfir veginn í Ósabotna að dæluhúsum Selfossveitna sem þar eru. Húsin standa á þurru og valda aðstæður því ekki áhyggjum hjá lögreglu, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Selfossi.

Lögreglan hefur flogið drónum yfir svæðið og á daglega fundi með Veðurstofu. Er því grannt fylgst með þróun mála.

„Þarna eru dæluhús fyrir hitaveituna, þeim er öllum fjarstýrt. Svo á meðan allt gengur venjulega fyrir sig þá þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu.“

Fátt annað að gera en að bíða

Veðurfarslegar aðstæður séu þó þannig að lögreglan telji sig þurfa að fylgjast með.

„Það er búið að vera frost það lengi og það mikill ís sem hefur lagt yfir Hvítá, Ölfusá og fleiri ár eru á Suðurlandinu. Við erum bara að fylgjast með. Við eigum fund með Veðurstofu á hverjum degi eins og alla hina dagana. Við erum að bera okkur saman við sérfræðingana,“ segir Oddur og gripið verði inn í ef eitthvað gerist.

„Þetta er náttúrulega náttúran sem er við að fást. Ef það kemur til dæmis stífla í einhverja á þá er fátt annað að gera en að bíða þar til hún ryður sig.“

mbl.is