„Loðnan sem þarna fékkst var hin þokkalegasta“

Polar Ammassak er eina skipið að loðnuveiðum við landið og …
Polar Ammassak er eina skipið að loðnuveiðum við landið og hefur það landað tvisvar í Neskaupstað. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Sigmund av Teigum

„Við feng­um þetta aðallega 50-60 míl­ur aust­ur af Langa­nesi,“ er haft eft­ir Guðmundi Halls­syni, skip­stjóra á græn­lenska upp­sjáv­ar­skip­inu Pol­ar Ammassak, á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar um síðasta loðnutúr skips­ins.

Skipið kom til hafn­ar í Nes­kaupstað í gær­morg­un með 1.430 tonn af loðnu og er það í annað sinn sem skipið land­ar loðnufarm á Norðfirði á vertíðinni.

Mikið líf og mikið af hval

„Afl­inn fékkst í fimm hol­um. Í fyrsta hol­inu feng­ust 100 tonn en síðan var þetta stig­vax­andi og í síðasta hol­inu feng­ust 400 tonn. Við þurft­um svo­lítið að hafa fyr­ir því að finna loðnuna en síðan fund­um við þarna góðan blett sem við vor­um á. Þarna var þokka­lega mikið að sjá og loðna á 7- 8 mílna svæði. Það var virki­lega mikið líf þarna og mikið af hval. Haf­rann­sókna­skipið Árni Friðriks­son, sem er í loðnu­leit, var ein­mitt kom­inn á þetta svæði. Loðnan sem þarna fékkst var hin þokka­leg­asta, 35 – 40 stk. Í kílói. Þessi loðna fer til fram­leiðslu á mjöli og lýsi hjá Síld­ar­vinnsl­unni,“ seg­ir Guðmund­ur.

Hann seg­ir skipið hafa komið í land vegna veðurs. „Það var kom­in bræla og ljóst er að það verður bræla að minnsta kosti fram á miðviku­dag. Við mun­um bíða eft­ir að veður lægji og þá verður haldið áfram af full­um krafti. Ég er bjart­sýnn og geri ráð fyr­ir fínni loðnu­vertíð.“

mbl.is