Starfshópur sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði til að semja drög að áætlun til að takast á við aðstæður eins og sköpuðust á Reykjanesbraut fyrir jól stefnir á að senda frá sér skýrslu í þessari viku.
Þórmundur Jónatansson, upplýsingafulltrúi innviðaráðuneytisins, segir lokafrágang standa yfir. Skýrslan átti að koma út í lok síðustu viku en tafir hafa orðið á því. Þegar skýrslan verður tilbúin fær Sigurður Ingi hana í hendur og metur stöðuna í kjölfarið.
Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá Vegagerðinni, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Fulltrúi frá innviðaráðuneytinu stýrir vinnunni. Hlutverk hópsins er að fara yfir það sem gerðist, greina atburðarásina og hvað hefði betur mátt fara.