Vél flugfélagsins Scoot fór í loftið fimm klukkustundum á undan áætlun á miðvikudag og skildi 35 farþega eftir á flugvellinum.
Flug TR509 átti upphaflega að leggja af stað frá Amritsar-flugvellinum í Indlandi klukkan 19:55 á miðvikudag. Leiðin lá til Singapúr. Fluginu var hins vegar flýtt og fór í loftið klukkan 15:45.
Breytingar á flugáætlun voru gerðar vegna breyttra veðuraðstæðna að sögn Scoot. Segir talsmaður flugfélagsins að allir 280 farþegarnir hafi verið látnir vita um breytinguna í bæði tölvupósti og smáskilaboðum.
Hins vegar virðist svo vera að hluti farþega sem bókaði í gegnum ferðaskrifstofu hafi ekki fengið tilkynninguna. Því fór svo að 35 farþegar komu ekki á flugvöllinn á réttum tíma og misstu af flugi sínu.
Félagið hefur beðist afsökunar á þessu og segir í tilkynningu að verið sé að vinna í því að aðstoða þá.