Hreinsað frá niðurföllum daglangt

Íbúar Árborgar finna fyrir hlýindum og vatnsveðri sem aðrir landsmenn. …
Íbúar Árborgar finna fyrir hlýindum og vatnsveðri sem aðrir landsmenn. Götumynd frá Stokkseyri. Ljósmynd/Birkir Pétursson

„Þetta er svona á tíu metra kafla þarna við Baldurshaga, niðurföllin eru sennilega bara stífluð,“ segir Birkir Pétursson sem ekur strætisvagni Árborgar en á Stokkseyri hefur vatnselgur verið á götunni þennan úrkomusama hlýviðrisdag. Kveður Birkir ástandið þó hafa verið verra þegar hann var að hefja akstur í morgun.

„Þá var vatn yfir öllu hérna fyrir framan sjoppuna sem heitir Skálinn, mikið og djúpt, en þeir voru komnir þar strax í morgun, ég var þarna klukkan tuttugu mínútur yfir sjö, og voru með gröfur og einhver tæki til að hreinsa frá niðurföllunum og eru enn að,“ segir vagnstjórinn og bætir því við að niðurföllin stíflist sífellt á ný þar sem klakinn fljóti að þeim og hefti rennsli.

Ekki hafa flóðin þó haft nokkur áhrif á aksturinn hjá Birki sem segist þó vera kannski tveimur til fjórum mínútum á eftir áætlun. „Það er nú ekkert nýtt, áætlunin er mjög stíf og erfitt að halda henni, maður rétt nær að skjótast á klósettið,“ segir Birkir sem hefur unnið við aksturinn í tvö ár.

Skárra en að aka í blindbyl

Hjá honum er rigning og sex stiga hiti og kveðst hann sjá greinilegan mun á snjónum í fjallshlíðum umhverfis eftir þá skyndilegu hlýnun sem landsmenn upplifa í dag. „Við fáum tjarnir í staðinn bara,“ segir hann.

Ein strætisvagnaleið þjónar íbúum Árborgar og leggur vagninn í sína fyrstu ferð frá Selfossi rétt fyrir klukkan sjö að morgni, ekur þaðan til Stokkseyrar og Eyrarbakka og er kominn aftur á byrjunarreit um 70 mínútum síðar. Eðlilega getur veður þó sett strik í reikninginn.

„Í fyrra var svo blint á köflum að maður sá varla fram fyrir rúðuþurrkur og þá bara læðist maður áfram. Stundum vissi maður ekkert hvar maður var en sá bara vegstikurnar,“ segir Birkir og játar að þegar komi að því að reyna að halda áætlun, svona nokkurn veginn alla vega, sé rigningin ólíkt skárri kostur en blindhríð.

Hreinsað hefur verið frá niðurföllum í allan dag á svæðinu. …
Hreinsað hefur verið frá niðurföllum í allan dag á svæðinu. Enn rignir að sögn Birkis Péturssonar og hitastigið er um sex gráður. Ljósmynd/Birkir Pétursson

Sjálfur býr hann á Selfossi, nýkominn þangað aftur eftir að hafa flutt þaðan árið 1988. „Svo lét ég nú til leiðast að koma aftur, var eiginlega beittur hópþrýstingi, systir mín býr hérna og bróðir minn, móðir mín er uppi í Reykholti og elsti bróðirinn á Laugarvatni,“ segir Birkir og kveðst ekki sjá eftir að væra kominn í faðm Suðurlandsins á ný enda uppbyggingin mikil og hröð.

„Síðan ég flutti hingað aftur fyrsta febrúar fyrir tveimur árum hefur sprottið upp fjöldi húsa sem var ekki hér þá. Hérna er óhemju-uppbygging, ég hugsa að eftir tíu ár verði Eyrarbakki, Stokkseyri og Selfoss orðið eitt þéttbýli, komin byggð alveg á milli,“ segir Birkir Pétursson, vagnstjóri fyrir austan, að skilnaði.

mbl.is