Sjö metra jólatré sem komið hafði verið upp fyrir jól á hringtorgi við Bæjarbraut og Hæðarbraut í Garðabæ féll í morgun eftir baráttu við Kára. Sigurður Hafliðason, yfirmaður áhaldahúss Garðabæjar, segir í samtali við mbl.is að rokið hafi náð að taka tréð niður í þetta skiptið, en vegna fyrirbyggjandi aðgerða síðustu daga í tengslum við asahlákuna hafði frestast að taka tréð niður.
„Það var rokið sem keyrði tréð niður,“ segir Sigurður, en hann tekur fram að tréð hafi ekki haft nein áhrif á umferð og í raun liggi það bara á góðum stað núna á hringtorginu. Áformað er að sækja það á mánudaginn, en bæjarstarfsmenn verða þá einnig á fullu að ganga frá öðrum jólaskreytingum.
Spurður um stöðuna í Garðabæ vegna veðursins segir hann að starfsmenn áhaldahússins hafi notað síðustu þrjá daga í undirbúning þegar ljóst varð í hvað stefndi. „Við vorum með fyrirbyggjandi aðgerðir, 2-3 vélar í gangi og fólk að finna niðurföll. Það varð til þess að ekkert hefur farið illa,“ segir hann. „Við erum mjög sáttir með það hvernig til tókst.“