Sunnanátt og hálka varasöm blanda

Regnhlífin er þarfaþing í dag fyrir fólk á ferðinni. Einar …
Regnhlífin er þarfaþing í dag fyrir fólk á ferðinni. Einar Sveinbjörnsson segir spennu í þjóðinni vegna handbolta og þorrablóta og varar við sunnanvindi og flughálum vegum sem sé varasöm blanda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað mikil umbreyting frá því sem verið hefur, snögg og mikil, svona er þetta stundum hér á landi, ytri öflin móta veðrið og þau taka yfir,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is um veðrið á landinu í dag.

Segir hann hæð yfir Asoreyjum beina gusu af hlýju lofti norður til Íslands, henni fylgi snögg hlýnun og um leið sé ýmislegt að varast. „Þó svo Vegagerðin hafi náð að vinna ýmsa vegi niður eins og sagt er, hreinsað upp klaka sem hefur myndast á löngum tíma, verða margir vegir flughálir þegar blotnar í,“ heldur Einar áfram og nefnir sérstaklega uppsveitir Suðurlands, Borgarfjörð, Dali, Vestfirði og Norðurland, einkum utan þjóðvega, og Austurland.

„Þar hefur skafið dálítið og skapað ófærð,“ segir Einar um Austurland. Hann segir vissa spennu í landsmönnum í dag, „bæði út af landsleiknum og vegna þorrablóta sem eru að fara í gang þannig að margir verða á ferðinni í kvöld og nótt. Það getur verið varasamt þegar saman fer hvass sunnanvindur og flughálir vegir, það á einkum við um Norður- og Austurland,“ segir veðurfræðingurinn.

Frostaveturinn litli

Inntur eftir stöðunni um helgina segir Einar mega búast við ágætisveðri á morgun með áframhaldandi hlýindum en veðrabrigði verði aftur á sunnudag með vestanátt og fylgi henni él vestanlands. „Þá gæti orðið erfitt, sérstaklega milli Reykjavíkur og Akureyrar, að fara á milli vegna blinduélja, svo sem yfir Holtavörðuheiði og víðar.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur man tímana tvenna þegar kemur að náttúru …
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur man tímana tvenna þegar kemur að náttúru landsins og veðurfari. Fara þurfi aftur til áranna upp úr 1980 til að finna ámóta kuldakast og fannfergi og verið hefur síðustu vikur. mbl.is/Sigurður Bogi

Síðustu vikur hafa haft í för með sér kulda og fannfergi sem sumir eru ekki vanir lengur eftir ár, jafnvel áratugi, af tiltölulega mildum vetrum. Hvað segir veðurfræðingurinn um nýliðna mánuði í sögulegu samhengi?

„Ég heyrði einhvern segja í hálfkæringi að nú væri frostaveturinn litli, svona af því að menn tala um frostaveturinn mikla árið 1918,“ svarar Einar, „en það er auðvitað þannig að þessi kafli, sem staðið hefur síðan í byrjun desember á landsvísu með litlum hléum, er orðinn langur og þarf að fara nokkra áratugi aftur til að finna eitthvað sem líkist þessu og það eru árin upp úr 1980,“ heldur hann áfram.

Subaru og Lada Sport

Rifjar Einar upp að á þeim tíma hafi hafís verið skammt undan landi fyrir norðan og vetur verið kaldir, nefnir hann þar sérstaklega janúar 1984 með löngu kuldatímabili. „Svo hlýnaði rétt fyrir aldamótin og fyrsti áratugur þessarar aldar var hlýr á Suður- og Vesturlandi og menn sáu lítið af snjó, vandræði voru til dæmis með skíðasvæði,“ rifjar Einar upp og ber saman við snjóaveturna tuttugu árum áður.

„Þá var nánast ófært nema á fjórhjóladrifsbílum og á þessum tíma voru líka margir á fjórhjóladrifnum Subaru-bílum og Lada Sport, litlu tíkurnar stóðu bara heima í stæðum allan veturinn, maður getur talað um þetta svona í minningunni,“ segir Einar Sveinbjörnsson að lokum.

Einn af séra Guðmundarkyninu. Lada Sport var algeng sjón á …
Einn af séra Guðmundarkyninu. Lada Sport var algeng sjón á íslenskum vegum níunda áratugarins og stundum ekki vanþörf á fjórhjóladrifi. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
mbl.is