Smám saman að frétta af snjóflóðum dagsins

Mynd af flóðinu sem féll í Vestdal í Seyðisfirði.
Mynd af flóðinu sem féll í Vestdal í Seyðisfirði. Ljósmynd/Bjarki Borgþórsson

Snjóflóð hafa fallið víða á landinu í hlýindunum sem ganga yfir landið. Snjóflóðahætta fylgdi hlýindunum sem byrjuðu á Vestfjörðum og færðust í austurátt yfir landið.

„Þetta er svona eins og við var að búast að þessi hláka ofan í snjóinn sem fyrir var hefur sett af stað snjóflóð. Þetta fór fyrst að gerast á Vestfjörðum í gær, það féllu mörg frekar lítil flóð hér og þar á Vestfjörðum. Þar fór á veg á tveimur stöðum,“ segir Harpa Grímsdóttir, sérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Snjóflóð í Seyðisfirði líklega minna en haldið var

Harpa segir aðeins stærri flóð hafa fallið á Tröllaskaga í gær þegar það hlýnaði.

„Síðan er það á Austfjörðum í nótt og í dag sem að hafa verið að falla flóð, við erum smám saman að frétta af þeim flóðum í dag,“ segir Harpa.

Forskráning á snjóflóði sem féll í Vestdal í Seyðisfirði, mældist 3,5 og er heldur í stærra lagi. Bjarki Borgþórsson snjóathugunarmaður fyrir Veðurstofuna segir að líklega hafi það flóð verið minna en leit út fyrir í fyrstu.

Byrjar aftur að safna að nýju

„Síðan þegar kólnar aftur, þá ætti þetta að styrkjast. Það hefur kólnað nú þegar á vestanverðu landinu og er kólnandi á Norðurlandi og ætti síðan að kólna í nótt eða í kvöld á Austurlandi,“ segir Harpa.

„Þá erum við að vonast til þess að hlákan hafi haft dálítið góð áhrif á snjóinn og bleytt hann. Síðan þegar frýs aftur þá styrkist hann frá því sem var fyrir hlákuna.“

„Það næsta sem gerist er síðan suðvestan éljagangur sem byrjar þá að safna einhverju nýju.“

mbl.is