Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn, segir að Kanaríeyjan Lanzarote verði heitasti áfangastaðurinn í sumar. Hún finnur fyrir því að það er vinsælla en áður að öll stórfjölskyldan fari saman í sumarfrí og þá er gott að bóka gistingu og flug með góðum fyrirvara.
„Ég held að nýi staðurinn okkar Lanzarote sem við erum að fljúga beint til verði mjög vinsæll. Hann mun hægt og rólega taka við af Tene þegar fólk er búið að prófa að koma þangað,” segir Þórunn spurð út í hvað verði vinsælt í sumar.
Menningin og landslagið á Lanzarote er meðal annars það sem gerir eyjuna öðruvísi en hinar Kanaríeyjarnar að sögn Þórunnar. „Það eru margir sem hafa komið á eigin vegum en núna erum við að fljúga beint. Það er margt áhugavert í boði í afþreyingu, fjöldi góðra veitingastaða, að skoða vínekrurnar og er þjóðgarðurinn Timanfaya þannig það er mikið að skoða,“ segir hún.
„Það hefur ekki verið boðið upp á beint flug til Lanzarote í mörg ár, það var gert fyrir fjöldamörgum árum síðan. Við teljum að þetta sé mjög góður staður fyrir Íslendinga og við erum að endurvekja hann. Gistingarnar og öll aðstaða er algjörlega til fyrirmyndar. Ég mæli eindregið að Íslendingar prófi að fara þangað í staðinn fyrir aftur á Tene. Fyrir fjölskyldur er þetta ekki spurning. Þetta er ekki stórt svæði og þægilegt að vera á.“
Þórunn segir að Ítalía verði einnig áfram vinsæl. „Við fljúgum til Verona vikulega og erum með gistingu í kringum Gardavatnið. Það er mjög þægilegt að fara í gegnum þann flugvöll og stutt í allar áttir. Þar erum við að selja flug og gistingu og þú leigir þér bílaleigubíl og ert frjáls á því svæði. Það er heilmikið að skoða og njóta. Þarna er Gardvatnið og fullt af smábæjum í kring sem vert er að skoða,“ segir hún.
„Það er jafnvel hægt að keyra upp til Madonna þar sem skíðafólkið okkar er núna að njóta sín, það er einnig dásamlegt að skoða þetta svæðið að sumri. Á sumrin í Madonna er hægt að ganga og njóta menningar og umhverfisins. Við höfum verið með tvo staði á veturna í tengslum við skíðin okkar það eru Madonna og Pinzolo. Ég var þarna sjálf í lok ágúst. Það er dásamlegt að vera þarna, loftslagið er gott aðeins kaldara en gott íslenskt sumarveður. Ég mæli eindregið með að prufa að fara þangað líka og hreyfa sig svolítið. Þetta er alveg jafn lifandi á sumrin og á veturna.“
Þórunn segir fólk vera að leita að svipaðri upplifun þegar það fer í sólina á sumrin og á veturna. „Á sumrin eru það meira stórfjölskyldurnar að fara saman. Þá reynir á að fólk bóki tímanlega til að fá gistingu fyrir alla af því það er takmarkað magn af stórum gistingum á þessum svæðum. Fólk vill almennt vera á góðum stöðum þar sem er góð þjónusta og líflegt umhverfi og allt fyrir alla fyrir fjölskyldu og vini,“ segir hún. Þórunn segir mikill kostur í því að kaupa pakkaferð þar þú veist nákvæmlega hvað er innifalið þegar á að fara í góða ferð á sumrin. Hún bendir á að það safnast auðveldlega upp kostnaðurinn þegar aðeins er bókað flug þar sem ekkert er innifalið vanti handfarangur og töskur. Fararstjórinn og þjónusta ferðaskrifstofunnar er einnig mikilvægur öryggisþáttur alla leið.
Eru aðrir staðir sem eiga mikið inni?
„Portúgal! Við höfum verið að fljúga til Faro, Algarve og Albufeira. Ég tel þann stað eiga mikið inni. Ég tel að fólk eigi að skoða þann stað vel. Þar er þægilegt að vera og áhugavert að koma,” segir Þórunn.
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Ég fer örugglega til Lanzarote og Algarve. Ég held að skemmtilegasta fólkið verði á Lanzarote og Portúgal í sumar. Ég held að það verði heitustu staðirnir og bara skemmtilegheit á þeim stöðum,“ segir Þórunn spennt fyrir sumrinu.