„Þetta er úrvalshráefni“

Loðnufrysting gengur vel í fiskiðjuverinu.
Loðnufrysting gengur vel í fiskiðjuverinu. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Geir Sigurpáll Hlöðversson

„Nú erum við að frysta hænginn á Austur-Evrópumarkað og þetta er úrvalshráefni. Það er ekki verið að frysta á fullum afköstum enn þá en um mánaðamótin verður fiskiðjuverið fullmannað og þá hefst vinnslan af fullum krafti,“ segir Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins í Neskaupstað, í færslu á vef Sildarvinnslunnar.

Barði NK kom til hafnar í Neskaupstað á miðvikudag með 1.300 tonn af loðnu.

 „Við vorum austur af Glettingi. Aflinn fékkst í þremur holum og var dregið í 3 til 6 ½ tíma. Í fyrsta holinu fengust 470 tonn, 390 í því næsta og 440 í lokaholinu. Þetta er fínasta veiði og í fyrra þurfti að draga miklu lengur til að fá sambærilegan afla. Þetta er fínasta loðna og hentar ábyggilega vel til frystingar. Það eru 40–42 stk. í kílóinu. Grænlensku skipin Polar Ammassak og Tasiilaq voru líka að fiska vel og héldu þau til Færeyja með aflann,“ segir Runólfur Runólfsson skipstjóri á Barða.

Barði NK kom með 1300 tonn af loðnu til Neskaupstaðar.
Barði NK kom með 1300 tonn af loðnu til Neskaupstaðar. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson
mbl.is