Nú er áætlað að kostnaður við nýjan samgöngusáttmála verði rúmlega 170 milljarðar en það er um 50 milljörðum meira en upphaflega var áætlað.
Kostnaður við stofnvegi eykst úr 52,3 milljörðum í 85,4 milljarða og munar þar mest um að framkvæmdir við Sæbraut eru taldar kosta 15 milljörðum meira en áður var áætlað.
Þá fer kostnaður við borgarlínu úr 49,6 milljörðum í 68,6 milljarða. Það skýrist fyrst og fremst af fyrsta áfanga en kostnaðarmat áfanga 2-6 er skemmra á veg komið. Kostnaður Betri samgangna af fyrsta áfanga fer úr 17,1 í 21,3 milljarða. Við það bætist kostnaður sveitarfélaganna og kostar áfanginn þá alls 28,14 milljarða.
Liður í því að greiða fyrir umferð og stytta ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu er að leggja götur í stokk.
Ný kostnaðaráætlun Betri samgangna bendir til að samanlagður kostnaður við að setja hluta Miklubrautar, Hafnarfjarðarvegar og Sæbrautar í stokk geti numið rúmum 54 milljörðum króna.
Rætt er við Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna, í Morgunblaðinu í dag en fyrirtækið var stofnað af ríkinu og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.
Davíð leggur áherslu á að kostnaður Betri samgangna hafi ekki hækkað jafn mikið og heildartölurnar gefi til kynna. Bæst hafi við verkefni af hálfu sveitarfélaganna sem verði unnin samhliða þessari uppbyggingu.