Loðnuvertíðin er rétt í startholunum og hafa aðeins fjögur íslensk uppsjávarskip landað loðnu það sem af er vertíð. Þá eru norsku skipin einnig ný byrjuð á veiðum í íslenskri lögsögu, en grænlensku skipin hafa verið á veiðum í smá tíma, hafa Polar Amaroq og Polar Ammassak bæði landað fyrir austan.
Alls hafa íslensku skipin landað 5.581 tonni af loðnu samkvæmt skráningu Fiskistofu en skipin hafa 139 þúsund tonna kvóta. Mesta afla hefur Barði NK landað eða 2.281 tonn af loðnu. Næst mest hefur Beitir NK borið að landi eða u 1.331 tonn. Þar á eftir fylgir Venus NS með 1.244 tonn og svo Víkingur AK með 725 tonn.
Sem fyrr segir eru Norðmennirnir nýbyrjaðir og og barst fyrsta loðna vertíðarinnar til vinnslu á Fáskrúðsfirði þegar Vendla landaði á 300 tonnum á sunnudag sem fengust 50 mílum austur af firðinum. Aflinn verður frystur og seldur til Austur-Evrópu, að því er fram kemur á vef Loðnuvinnslunnar.
Færði útgerðin norðmönnunum um borð Vendlu væna köku vegna þessara tímamóta.
Alls hafa grænlensk, færeysk og norsk skip heimildir til að veiða rúm 79 þúsund tonn af loðnu í íslenskri efnahagslögsögu. Þar af fara norsku skipin með um 40 þúsund tonn, grænlensku rúm 30 þúsund tonn og þau færeysku tæp 9 þúsund tonn.
Norsku skipin búa við þær takmarkanir samkvæmt gildandi samningum að þau mega meðal annars aðeins nýta loðnunót og ekki mega vera fleiri en 30 norsk skip á loðnuveiðum í lögsögunni hverju sinni.
Á síðustu vertíð voru norsku skipin með rúmlega 140 þúsund tonna kvóta, en ekki tókst þeim að veiða allan þann afla áður en umsömdu veiðitímabili lauk. Féllu því 52 þúsund tonn sem út af stóðu til íslenskra skipa.
Útgefnar veiðiheimildir í loðnu fyrir öll skip nemur 218 þúsund tonnum í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarksveiði, en bundnar eru vonir við að á næstu dögum verði tilkynnt um að mælst hafi töluvert af loðnu í vetrarleiðangri og að það gefi tilefni til að endurskoða veiðiráðgjöfina.
Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, upplýsti í gær að mælingin hafi gengið vel en kvaðst ekki geta sagt neitt frekar um mögulegar niðurstöður stofnmælingarinnar.