Fjöldi norskra skipa hefur landað yfir 1.800 tonnum af loðnu á Fáskrúðsfirði síðustu daga. Nú er unnið nótt og dag í Loðnuvinnslunni við að frysta loðnuna. Það sem flokkast undan fer í bræðslu, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins.
Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar segir farmana ekki mjög stóra, 250 til 300 tonn, en safnist þegar saman kemur. Sex skip lönduðu fyrir helgi og þar á undan lönduðu tvö skip.
„Nú er komin bræla og verður væntanlega fram á miðvikudag,“ segir Friðrik og bætir við að skipin bíði veðrið af sér áður en haldið sé aftur út á miðin. „Það er bara fjögurra til fimm tíma sigling út á miðin frá okkur.“
Lesa má umfjöllunina í heild í Morgunblaðinu í dag.