Milljarðamæringurinn og meðstofnandi Microsoft, Bill Gates, virðist hafa fundið ástina á ný. Rúmlega tvö ár eru liðin frá því að Bill og eiginkona hans til 27 ára, Melinda Gates, skildu. Þau gengu í hjónaband árið 1994 og eiga saman þrjú börn, þau Jennifer, Rory og Pheobe.
Fram kemur á vef Page Six að Bill og Paula Hurd séu nú í sambandi. Paula er ekkja Mark Hurd, fyrrverandi forstjóra Oracle, sem lést í október 2019 aðeins 62 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein.
Bill og Paula hafa verið saman í meira en ár, en Paulu var lengst af lýst sem „huldukonu“ í fjölmiðlum. „Þau eru óaðskiljanleg. Þau hafa verið saman í meira en ár og henni hefur alltaf verið lýst sem „huldukonu“ en það er engin ráðgáta fyrir fólkið í kringum þau að þau séu í rómantísku sambandi,“ sagði heimildarmaður Daily Mail á dögunum.
Bill og Paula eru sögð hafa þekkst áður en Mark lést, en þau deila mikilli ástríðu fyrir tennis. Í síðasta mánuði sást parið horfa á úrlistaleik karla í tennis á Opna ástralska meistaramótinu í Melbourne.
Mark var framkvæmdastjóri tölvu- og prentaraframleiðslunnar Hewlett-Packed á árunum 2005 til 2010, en hann sagði af sér í ágúst 2010 eftir að hafa verið sakaður að áreita samstarfskonu sína kynferðislega á vinnustaðnum.
Skömmu síðar var hann ráðinn til starfa hjá keppinautnum Oracle, en þegar hann lést voru auðæfi hans metin á um 500 milljónir bandaríkjadala sem nemur rúmum 70 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.