Fátt bendir til þess að loðna af Íslandsmiðum verði flutt út til Rússlands þrátt fyrir getgátur þar um, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Samkvæmt gögnum sem færeyska hagstofan, Hagstova Forøya, birtir á vef sínum hefur útflutningur sjávarafurða dregist saman svo um munar síðastliðið ár og hefur ekki verið seld loðna til Rússlands síðan 2015.
Fullyrt var í umfjöllun norska blaðsins Fiskeribladet að ekki væri hægt að útiloka að 890 tonna loðnuafli sem skipið Birkeland landaði í Færeyjum myndi enda í Rússlandi, þar sem Færeyingar eru ekki þátttakendur í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Staðreyndin er samt sú að útflutningur sjávarafurða til Rússlands frá Færeyjum hrundi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.