Íslandsbanki hefur sett fram hluta skýringa sinna og sjónarmiða við frummat Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) um að bankinn kunni að hafa brotið gegn lögum sem gilda um bankann og starfsemi hans í söluferli bankans í mars í fyrra.
Íslandsbanki ætlar að koma öllum sínum sjónarmiðum frá sér fyrir miðjan febrúar. Í kjölfar þess væntir bankinn viðbragða FME.
Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka.
Í frummatinu er athygli vakin á heimildum FME til að leggja á stjórnvaldssektir og ljúka málum með sátt. Íslandsbanki hefur óskað eftir því að ljúka málinu með sátt.
Í ársreikningnum segir að fjárhæð mögulegrar stjórnvaldssektar hafi ekki verið ákveðin en bankinn hafi metið fjárhagsleg áhrif mögulegrar stjórnvaldssektar og fært skuldbindingu vegna málsins byggða á innra mati. Ekki verður greint frá fjárhæð skuldbindingarinnar.
Fram kemur einnig að Íslandsbanki hafi þegar gert breytingar á innri reglum og ferlum í kjölfar útboðsins og muni halda slíkri vinnu áfram eftir því sem tilefni gefst til.