Kveðst ekki vanhæfur til að fjalla um fiskeldi

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, skilaði á mánudaginn skýrslu um stjórnsýslu …
Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, skilaði á mánudaginn skýrslu um stjórnsýslu og eftirlit sjókvíaeldis á Íslandi.

Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi seg­ir að eign­ar­hald hans og konu hans á Leys­ingja­stöðum í Dala­byggð geri hann ekki van­hæf­an skv. lög­um um rík­is­end­ur­skoðanda og end­ur­skoðun rík­is­reikn­inga til þess að fjalla um fisk­eldi á Íslandi, líkt og hann hef­ur gert að und­an­förnu.

„Eig­in­kona mín, Helga Jóna Bene­dikts­dótt­ir, hef­ur und­an­far­in ár gegnt stöðu for­manns Veiðifé­lags Laxár í Hvamms­sveit en sú staðreynd hef­ur eng­in áhrif á hæfi mitt skv. fyrr­greind­um lög­um. Þess skal jafn­framt getið að sjálf­ur hef ég eng­an þátt tekið í störf­um Lands­sam­bands veiðifé­laga. Eng­ar slík­ar aðstæður eru fyr­ir hendi að draga megi óhlut­drægni mína í efa við vinnslu út­tekt­ar Rík­is­end­ur­skoðunar á sjókvía­eldi,“ seg­ir í skrif­legu svari Guðmund­ar við fyr­ir­spurn­um mbl.is vegna máls­ins.

Sjókvíaeldi Arctic Fish í Eyjafirði.
Sjókvía­eldi Arctic Fish í Eyjaf­irði. mbl.is/​Helgi Bjarna­son

Bar ábyrgð á mála­flokkn­um sem ráðuneyt­is­stjóri

Spurður út í aðkomu sína að setn­ingu reglna og laga um starfs­um­hverfi fisk­eld­is á árum sín­um í land­búnaðarráðuneyt­inu seg­ir Guðmund­ur að sem ráðuneyt­is­stjóri land­búnaðarráðuneyt­is­ins á ár­un­um 2000 til árs­loka 2007 hafi hann borið ábyrgð á rekstri allra þeirra mála sem und­ir ráðuneytið féllu að lög­um og út­gáfu reglu­gerða þar um, þ.m.t. hvað varðar veiði í ám og vötn­um, eldi vatna­dýra og önn­ur veiðimál.

„Meðal ann­ars kom ég að und­ir­bún­ingi og út­gáfu aug­lýs­ing­ar nr. 460/​2004 um friðun­ar­svæði þar sem eldi lax­fiska í sjókví­um er óheim­ilt, en fjallað er um þá aug­lýs­ingu í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar á bls. 47-48. Með aug­lýs­ing­unni leituðust stjórn­völd við að finna jafn­vægi á milli ólíkra sjón­ar­miða um vernd­un villtra laxa­stofna og nýt­ingu auðlinda til sjókvía­eld­is, en um er að ræða viðvar­andi verk­efni stjórn­valda. Aðkoma mín að þess­um störf­um hef­ur eng­in áhrif á hæfi mitt skv. lög­um nr. 46/​2016.“

Mark­mið NASCO sam­ræm­ist stefnu Íslands

Spurður út í störf sín sem formaður sendi­nefnd­ar Norður-Atlants­hafslaxa­vernd­un­ar­stofn­un­inni (North Atlantic Salmon Conservati­on Org­an­izati­on - NASCO) fyr­ir hönd ís­lenska rík­is­ins bend­ir Guðmund­ur á að Ísland hafi sagt sig úr nefnd­inni árið 2009. Aðild að stofn­un­inni er að öðru leyti óbreytt frá stofn­un. 

„Sjókvía­eldi er stundað í tölu­verðum mæli af ríkj­um inn­an vé­banda NASCO. Stofn­un­in hef­ur með störf­um sín­um m.a. leit­ast við að lág­marka áhættu á erfðablönd­un vegna sjókvía­eld­is og út­breiðslu fisk­sjúk­dóma, mark­mið sem hef­ur alla tíð farið sam­an við stefnu Íslands í mála­flokkn­um.“

Þá ósk­ar Guðmund­ur eft­ir að því sé haldið til haga að hann hafi gert stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd grein fyr­ir störf­um sín­um í þágu ís­lenskra stjórn­valda inn­an NASCO á fund­um henn­ar nú í vik­unni.

„Ekk­ert í þeim störf­um vek­ur spurn­ing­ar um hæfi rík­is­end­ur­skoðanda skv. fyrr­greind­um lög­um.“

mbl.is