Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, telur ekki nauðsynlegt að taka samgöngusáttmálann upp í heild sinni og segir mikilvægt að það sé vandað til verka í áætlunargerðinni.
Sáttmálinn sé aftur á móti gríðarlega mikilvægur fyrir þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu enda finni flestir fyrir þeim umferðavanda sem blasi við. Mikilvægt sé að bregðast við.
Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn mbl.is. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær að endurmeta þurfi Samgöngusáttmálann í ljósi þess að framkvæmdaáætlun hans sé þegar komin 50 milljarða fram úr áætlun.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri Samgangna, sem hefur umsjón með verkefnum Samgöngusáttmálans, taldi upphæðina sem Ásdís nefnir ekki rétta og segir hana vera töluvert lægri, eða í kringum 17 milljarða.
Að sögn Regínu er áhyggjuefni í þessu verkefni, eins og öðrum opinberum verkefnum, ef áætlanir standast ekki. Hún tekur þó fram að hátt verðlag og verðbólga hafi hins vegar haft áhrif á vegagerð á sama hátt og það hafi áhrif á flestalla innviðauppbyggingu um þessar mundir.
„Samgöngusáttmálinn er gríðarlega mikilvægur fyrir þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu og það finna flestir fyrir þeim umferðarvanda sem blasir við höfuðborgarbúum á degi hverjum.
Við verðum einfaldlega að bregðast við með uppbyggingu á samgöngumannvirkjum og öflugri almenningssamgöngum. Ég treysti sameiginlegu félagi sveitarfélaganna og ríkisins, Betri samgöngum til að halda vel utan um verkefnið í þéttu samstarfi við Vegagerðina og hafa hagsmuni íbúa höfuðborgarsvæðisins að leiðarljósi,“ segir í svari Regínu.