Segir borgina í afneitun um Klapp

Meirihlutinn í borginni vill ekki að óháð úttekt sé gerð …
Meirihlutinn í borginni vill ekki að óháð úttekt sé gerð á Klapp, greiðslukerfi Strætó. mbl.is/Hari

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn sé í mikilli afneitun er varðar Klapp, greiðslukerfi Strætó.

Aukafundur borgarstjórnar fór fram í gær en þrjú mál voru á dagskrá, þar á meðal tillaga Sjálfstæðisflokksins um að óháð úttekt yrði gerð á Klapp. Tillagan var felld af meirihlutanum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun á fundinum þar sem þau harma að tillögunni hafi verið vísað frá.

„Full ástæða er til að slík úttekt fari fram í því skyni að auka tekjur Strætó, bæta þjónustu við farþega og tryggja jákvæða þjónustuupplifun þeirra. Ljóst er að kerfið virkar ekki eins og skyldi eins og stöðugt kemur fram í umsögnum og einkunnagjöfum ótal farþega á notendasíðum Klappsins (Google Play og App Store) sem og á sjálfsprottnum síðum strætisvagnafarþega. Í langflestum þessara umsagna fær Klapp-kerfið slæman vitnisburð og þar má jafnframt lesa raunalegar reynslusögur,“ segir meðal annars í bókuninni.

Þar segir það vera ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn sé í mikilli afneitun gagnvart þessu vandamáli og vilji ekki ræða það ótilneyddur.

„Slæmt er ef slík afneitun og vanhæfni pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar verður til þess að tefja úrbætur á þessu mikilvæga greiðslukerfi með áframhaldandi skaða fyrir fjárhag Strætó og almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bókuninni.

Gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans

Kjartan Magnússon segir í samtali við mbl.is að borgin hafi vanrækt hlutverk sitt sem meirihlutaeigandi Strætó. „Nú hafa verið vandræði með þetta app í 15 mánuði. Ég held að það sé alveg ljóst að ráðgjafi sem færi í þetta myndi finna margt gagnrýnisvert,“ segir Kjartan.

Hann segir mikla afneitun ríkja hjá Strætó og borgarmeirihlutanum og gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans í tengslum við málið, meðal annars sem snertir forseta borgarstjórnar, Þór­dísi Lóu Þór­halls­dótt­ur. 

Pólitískar árásir á borgarfulltrúa

Kjartan segir meirihlutann hafi dregið umræður á langinn fram eftir fundinum á þriðjudag og hafi síðan samþykkt einhliða að fella fjögur mál af dagskránni, sem öll komu frá minnihlutanum, þar á meðal tillagan um óháða úttekt á Klapp – greiðslukerfi Strætó.

Það hafi verið gert til að koma í veg fyrir umræðu um málefni Strætó en að sögn Kjartans finnst meirihlutanum óþægilegt að ræða þau mál.

Kjartan segir að forseti borgarstjórnar hafi sjálf kosið að halda fundinn kl. 15 á föstudegi.

„Sennilega til þess að hafa fundartímann eins óþægilegan og hægt var og að stofna til umrædds kostnaðar í því skyni að geta sakað þá, sem óskuðu eftir fundinum, um að valda þeim útgjöldum,“ segir Kjartan.

„Þennan kostnað, sem liggur ekki fyrir hvað er hár, notar hún til pólitískra árása á borgarfulltrúa, sem hafa það eitt til saka unnið að óska eftir aukafundi til að nýta þann rétt, sem þeim er áskilinn í 27. grein sveitarstjórnarlaga: réttur til að setja má á dagskrá borgarstjórnarfunda og fá þau tekin fyrir þar. Rétt sem þessi sami forseti tók af þeim með því að fella málin af dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudag,“ segir hann.

Fjórir aukafundir á síðasta ári

Kjartan gefur lítið fyrir orð Þórdísar Lóu um að sjaldgæft sé að aukafundir séu haldnir í borgarstjórn og vitnar hann í frétt mbl.is frá því í gærkvöldi.

„Að sögn Þórdísar man hún ekki eftir því að aukafundur í borgarstjórn hafi verið boðaður síðastliðin fimm ár. Það er ekki rétt og ótrúlegt að forseti borgarstjórnar skuli halda slíku fram. Bara á nýliðnu ári, 2022, voru fjórir aukafundir haldnir í borgarstjórn: 8. febrúar, 26. apríl, 24. maí og 13. desember.“

Tillaga Sjálfstæðisflokksins sem var felld:

Borgarstjórn samþykkir að óháðu ráðgjafarfyrirtæki verði falið að gera úttekt á Klapp-greiðslukerfi Strætó bs. og koma með tillögur til úrbóta. Úttektin feli í sér mat á virkni kerfisins frá því það var tekið í notkun. Skoðaðir verði verkferlar við val, kaup og innleiðingu sem og val á samstarfsaðila, hugbúnaði og tækjabúnaði. Metið verði hvort hugbúnaður og tækjabúnaður kerfisins séu fullnægjandi og standist samanburð við sambærileg kerfi í nágrannalöndum. Þá verði metið hvernig greiðslukerfið þjónar farþegum, með tilliti til afgreiðsluhraða, áreiðanleika og notendaupplifunar. Þessir þættir verði metnir frá sjónarhóli farþega gagnvart mismunandi lausnum kerfisins, þ.e. hvort keyptur sé stakur miði, tíu miða spjald, dagpassi eða kort fyrir lengra tímabil. Loks verði í úttektinni tekin afstaða til þess hvort æskilegt sé að halda áfram með núverandi greiðslukerfi eða skoða kaup á betra kerfi, sem sannað hefur gildi sitt varðandi virkni, rekstraröryggi og þjónustu við farþega. Skrifstofu borgarritara verði falið að semja við ráðgjafarfyrirtæki vegna málsins. Niðurstöður úttektarinnar verði kynntar borgarráði fyrir 1. maí 2023.

mbl.is