Hinn 14. febrúar ár hvert er Valentínusardagurinn haldinn hátíðlegur víðsvegar um heiminn. Fyrstu heimildir um Valentínusardaginn hér á landi eru úr Morgunblaðinu frá árinu 1958, en þá höfðu blómabúðir í Reykjavík sett sérstaka blómvendi á sölu í tilefni dagsins.
Flestir tengja Valentínusardaginn eflaust við Bandaríkin þar sem mikið er gert úr deginum þar í landi, en Valentínusardagurinn á hins vegar uppruna sinn að rekja til Evrópu á 14. öld. Það er því ekki fjarri lagi að halda upp á daginn og um að gera að nýta hvert tækifæri sem gefst til að rækta ástina.
Það er fátt sem jafnast á við töfrandi ferðalag á rómantískan áfangastað með betri helmingnum. Því tók ferðavefur Condé Nast Traveller nýverið saman rómantískustu áfangastaði heims í von um að veita elskhugum innblástur fyrir næsta ferðalag, enda tilvalið að nýta Valentínusardaginn sjálfan til að skipuleggja ævintýri með ástinni.
1. Santorini á Grikklandi
Flestir hafa dáðst að myndum frá grísku eyjunni Santorini sem er í Eyjahafi í um 200 kílómetra fjarlægð frá meginlandi Grikklands. Eyjan einkennist af mögnuðum arkitektúr, fallegu landslagi og töfrandi sólsetri sem saman mynda rómantískasta stað heims.
2. Maldíveyjar
Maldíveyjar eru í Indlandshafi. Það er ekki að ástæðulausu sem eyjarnar eru ofarlega á lista yfir rómantískustu áfangastaði heims, enda bjóða þær gestum upp á grænbláan tæran sjó, stórkostlegar strendur og rómantískt andrúmsloft.
3. París í Frakklandi
París er oft kölluð borg ástarinnar, enda borg sem er stútfull af lifandi menningu, fallegri hönnun og rómantískri matarsenu. Íslendingar virðast sérlega hrifnir af því að trúlofa sig í borginni og hafa ófáir skellt sér á skeljarnar í París með góðum árangri.
4. Marrakech í Marokkó
Ef þú ert í leit að sólríku og ævintýralegu ástarfríi þá er Marrakech í Marokkó hinn fullkomni áfangastaður fyrir þig. Það er ekki erfitt að finna fjölbreytta afþreyingu í borginni sem býr yfir mikilli fegurð.
5. Tulum í Mexíkó
Gullnar strendur Mexíkó hafa lengi verið aðdráttarafl fyrir ástfangin pör sem vilja sleikja sólina. Tulum verður æ vinsælli áfangastaður, en borgin býr yfir einstakri hönnun og miklum lúxus.