Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir það óskiljanlegt hvernig ensku er gert hærra undir höfði en íslensku.
Þetta kemur fram í opnu bréfi prófessorsins til fyrirtækisins Lindarvatns, sem hefur staðið fyrir endurgerð Nasa og Gamla Kvennaskólans við Thorvaldsensstræti.
Fjallað var um framkvæmdirnar og afraksturinn sýndur í sjónvarpsfréttum ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Athygli vakti, eins og Eiríkur gerir að umtalsefni, að þýdd sérnöfn á ensku voru þar höfð ofar í merkingum en íslensku og upprunalegu heitin.
„Þannig sást skilti þar sem stendur Independence Hall og fyrir neðan Sjálfstæðissalurinn, og annað þar sem stendur The Ladies' School en Kvennaskólinn þar fyrir neðan,“ skrifar Eiríkur í bréfinu sem hann birtir í hópnum Málspjallinu á Facebook.
„Fyrir nú utan það að The Ladies' School er fráleit þýðing á Kvennaskólinn er óskiljanlegt hvers vegna enskunni er þarna gert hærra undir höfði en íslensku. Ekki verður séð að sú starfsemi sem áformuð er í húsinu sé eingöngu ætluð útlendingum, en þó svo væri dugir það ekki sem ástæða fyrir þessu,“ bætir hann við.
Bendir hann á að íslenskan eigi nú undir högg að sækja vegna mikils þrýstings frá ensku, sem sé yfir og allt um kring í málumhverfi okkar.
„Ef við viljum raunverulega halda íslensku sem aðalsamskiptamáli í landinu, eins og ég held að við viljum flest, verðum við öll að leggja hönd á plóg. Mesta hættan sem steðjar að íslenskunni er andvaraleysi okkar gagnvart enskunni og skortur á metnaði fyrir hönd íslenskunnar.
Að hafa ensku á undan íslensku á skiltum er gott dæmi um hvort tveggja. Sjálfsagt er að hafa enskuna með á skiltum, en hún á skilyrðislaust að koma á eftir íslenskunni,“ skrifar Eiríkur.
Heldur hann svo áfram:
„Árið 1848 lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp svohljóðandi tilkynningu á almannafæri, að gefnu tilefni: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.“
Þótt síðan séu liðin 175 ár á þetta enn við, og er mikilvægara en nokkru sinni. Þess vegna skora ég á ykkur að setja upp nýjar merkingar þar sem íslenska sé höfð á undan ensku á skiltum.
Að öðrum kosti eruð þið að leggja ykkar af mörkum til þess að gera íslenskuna að annars flokks tungumáli á Íslandi sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar hennar meðan við fljótum sofandi að feigðarósi.“
Í október fjallaði mbl.is um að í flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík væru flest skilti með enskuna í forgrunni. Íslenskan kæmi þar fyrir neðan sem annað tungumál, og stundum alls ekki.
Umfjöllunin vakti athygli og leiddi til þess að stjórn Isavia samþykkti bókun á fundi sínum þess efnis að íslenska yrði í forgrunni tungumála við endurnýjun merkingakerfis í flugstöðinni.