70 starfsmenn í samfelldri loðnuvinnslu

Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA komu til löndunar í …
Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA komu til löndunar í Neskaupsstað síðastliðna helgi. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson

Nóg hef­ur verið um að vera í fiskiðju­veri Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað, en þar hef­ur verið landað ríf­lega fjög­ur þúsund tonn­um af loðnu und­an­farna daga og hafa um 70 starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins verið í sam­felldri loðnu­vinnslu á þrískipt­um vökt­um.

Þetta kem­ur fram í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Um helg­ina kom Börk­ur NK með 1.550 tonn og Vil­helm Þor­steins­son EA með 2.100 tonn. Fram kem­ur í færsl­unni að lokið hafi verið að vinna afl­ann úr Vil­helmi Þor­steins­syni í nótt. Þá á eft­ir að ljúka vinnslu afla úr Beiti NK sem kom í gær með 400 tonn. Afl­inn fékkst í tveim­ur köst­um þegar gerðist stutt hlé á bræl­unni sem truflað hef­ur veiðar und­an­farið.

Geir Sig­urpáll Hlöðvers­son, rekstr­ar­stjóri fiskiðju­vers­ins, seg­ir í færsl­unni að vinnsl­an hafi gengið mjög vel. „Við höf­um verið að fram­leiða hæng og svo­nefnt mix. Hrogna­fyll­ing­in er núna rúm­lega 12% en það verður ekki farið að frysta á Jap­an fyrr en hún er orðin 15%. Veðurút­lit núna er gott og menn eru bjart­sýn­ir hvað varðar veiðina. Hér er því góð stemn­ing og það verður vænt­an­lega nóg að gera á næst­unni. Skip­in eru að veiða núna út af Suður­sveit­inni.“

mbl.is