Kóralþörungar mikilvægir fyrir ungviði þorsksins

Michelle Lorraine Valliant mun fjalla um mikilvægi kóralþörungabreiða fyrir ungviði …
Michelle Lorraine Valliant mun fjalla um mikilvægi kóralþörungabreiða fyrir ungviði þorsks. Samsett mynd: Sjávarlíf/Erlendur Bogason og Hafrannsóknastofnun

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að varðveisla kóralþörunga sé mikilvæg sem búsvæði fyrir ungviði þorsktegunda, en ofnýting á kóralþörungum er þekkt vandamál og því hafa verið skilgreind verndarsvæði fyrir kóralþörunga meðfram strandlengjum bæði í Atlantshafi og við Miðjarðarhaf.

Um þetta fjallar Michelle Lorraine Valliant, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindasvið Háskóla Íslands, í erindi sínu sem flutt verður á málstofu Hafarnnsóknastofnunar á morgun, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Þar segir að „kortlagning á útbreiðslu kóralþörunga ekki verið fullnægjandi og lítið um rannsóknir á tengslum við dýrategundir, en þó hefur verið sýnt fram á mikilvægt gildi kóralþörunga sem búsvæði fyrir ungviði fiska.“

Þorskur er líklega mikilvægasti nýtjastofn Íslendinga fyrr og síðar.
Þorskur er líklega mikilvægasti nýtjastofn Íslendinga fyrr og síðar. mbl.is/Alfons

Í rannsókninni sem Valliant fjallar um var bæði kafað og notast við myndavélabúnað til að telja fiska innan um kóralþörungabreiður og á aðlægum botni. „Niðurstöðurnar benda til þess að þorskaseiði og ufsaseiði væru algeng í kóralþörungabreiðum og tíðara eftir því sem þekjan var meiri. Auk þess virtist talning á ungviði vera meiri með myndavélabúnað fram yfir talningu með köfun.“

Erindið verður flutt á ensku og heitir: „Juvenile gadoid abundance on maerl (rhodolith) beds in Iceland / Þéttleiki ungviðis þorsktegunda á kóralþörungi (rhodolith) á Íslandi.“

Málstofan fer fram í höfðustöðvum Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum í Hafnarfirði en verður einnig í beinu streymi á Youtube-rás stofnunarinnar, en streymið verður einnig aðgengilegt á síðum 200 mílna á mbl.is.

mbl.is