Fyrsti íslenski áhrifavaldurinn á sjó

Einar Már Kristmundsson er íslenski fiskimaðurinn eða Icelandicfisherman á Instagram, …
Einar Már Kristmundsson er íslenski fiskimaðurinn eða Icelandicfisherman á Instagram, þar nýtur hann töluverðra vinsælda og hefur náð að safna yfir 54 þúsund fylgjendum. Ljósmynd/Einar Már Kristmundsson

Sjómaðurinn Einar Már Kristmundsson segir í viðtali í nýjasta blaði 200 mílna það alls ekki hafa verið ætlunin að ná einhverri frægð þegar hann hóf að birta myndir og myndbönd af sjómannslífinu og íslenskum línuveiðum á Instagram undir nafninu „Icelandicfisherman“, en það varð raunin og hefur hann nú þúsundir fylgjenda og hefur myndefni hans náð til milljóna.

„Eftir að ég byrjaði með núverandi kærustu minni – hún er sem sagt pólsk – og ég fór að fara út til Póllands og hitta fólkið hennar var svo rosalega mikið verið að spyrja hvernig sjómannsstarfið væri. Þá stakk einhver upp á því að ég kæmi einhverju á Instagram sem hægt væri að fylgjast með og ég gerði það,“ útskýrir Einar Már.

Það er ekki furða að myndefnið hafi vakið athygli.
Það er ekki furða að myndefnið hafi vakið athygli. Ljósmynd/Einar Már Kristmundsson

„Þetta voru nokkrir mánuðir þar sem ég var með einhverja 70 fylgjendur. Það var eitt vídeó sem fékk alveg nokkur þúsund áhorf, svo liðu nokkrir dagar og ég var eitthvað að kíkja á þetta og þá voru allt í einu bara hundrað. Ég hugsaði hvernig það gæti verið að þetta dytti svona niður. Þegar ég gáði betur stóð hundrað k [sem merkir þúsund]. Þá voru þetta hundrað þúsund og ég bara vissi ekki hvað. Þá fór þetta almennilega af stað og síminn var alveg á milljón,“ segir hann og hlær.

Fiskimaðurinn íslenski er nú með jafn marga fylgjendur á Instagram og helstu svokallaðir áhrifavaldar á Íslandi. Það er því eðlilegt að spurja hvort hann sé þá formlega orðinn áhrifavaldur?

„Já, maður tekur því sem kemur með þessu. Ef fólk vill kalla mig það er það alveg í góðu lagi. Strákur sem er með mér á sjó sagði að ég væri sjóhrifavaldur, hvað sem það nú merkir,“ svarar Einar Már og skellir upp úr.

Viðtalið við Einar Má má lesa í nýjasta blaði 200 mílna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: