Ákærður fyrir tveggja ára gamalt sóttvarnabrot

Mál mannsins verður þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri …
Mál mannsins verður þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri 30. mars. mbl.is/Þorsteinn

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákært 24 ára gamlan karlmann fyrir brot á sóttvarnarlögum með því að hafa komið í mars árið 2021 til landsins án þess að geta sýnt fram á neikvætt PCR-vottorð eins og var þá áskilið. Ákæran og fyrirkall er birt í Lögbirtingablaðinu í dag, en slíkt er jafnan gert þegar ekki næst að birta fólki fyrirkall.

Samkvæmt ákærunni kom maðurinn til landsins með flugi frá Amsterdam 23. mars 2021 og lenti á Keflavíkurflugvelli. Reglugerð var þá í gildi um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamærin vegna Covid-19 faraldursins. Er maðurinn talinn hafa brotið gegn þessari reglugerð með því að geta ekki sýnt fram á neikvætt PCR-vottorð.

Í fyrirkallinu er skorað á manninn að mæta í Héraðsdóm Norðurlands eystra 30. mars, en þar fer fram þingfesting málsins. Sæki maðurinn ekki dómþingið getur hann búist við því að fjarvist hans verði metin til jafns við að hann viðurkenni sök og að hann verði dæmdur að sér fjarstöddum.

mbl.is