Biðlar til sjómanna að fella ekki samninginn

Það þótti mikill áfangi þegar fulltrúar sjómanna og útgerða náðu …
Það þótti mikill áfangi þegar fulltrúar sjómanna og útgerða náðu saman um nýjan kjarasamning. Nú biðlar varaformaður Sjómannasambands Íslands til félagsmanna að hafna ekki samningnum á röngum forsendum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svo virðist sem ein­hver ótti hafi skap­ast um að sjó­menn hafni kjara­samn­ingn­um sem ný­lega var und­ir­ritaður milli full­trúa sjó­manna og Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Talið er að vill­andi upp­lýs­ing­ar um samn­ing­inn séu í dreif­ingu á sam­fé­lags­miðlum í tengsl­um við breyt­ing­ar á skipta­pró­sentu vegna fjár­fest­inga, en pró­sent­an en grund­völl­ur launa sjó­manna.

Í pistli sem birt­ur hef­ur verið á vef Sjó­manna­sam­bands Íslands biðlar Ægir Ólafs­son, vara­formaður sam­bands­ins, til sjó­manna um að samþykkja samn­ing­inn.

„Það væri stór­slys ef nýja kjara­samn­ingn­um yrði hafnað í yf­ir­stand­andi at­kvæðagreiðslu. Þá tæki við al­gjör óvissa, ástand sem ég held að við höf­um fengið miklu  meira en nóg af. Ég hvet sjó­menn til að nýta sér at­kvæðarétt sinn og taka upp­lýsta ákvörðun byggða á staðreynd­um en láti sér rang­færsl­ur og rangtúlk­an­ir um efni samn­ings­ins um eyru þjóta.“ skrif­ar hann.

For­send­an auk­in afla­verðmæti

Kvöldið 9. fer­bú­ar síðastliðinn und­ir­rituðu full­trú­ar stétt­ar­fé­laga sjó­manna og Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi kjara­samn­ing til tíu ára, en samn­ing­ar höfðu verið laus­ir frá 2019. Mik­il ánægja var með samn­ing­inn meðal full­trúa sjó­manna sem sögðu mik­inn ár­ang­ur hafa náðst.

„Því miður er það svo að á sam­fé­lags­miðlum er ým­is­legt sagt og full­yrt um nýja samn­ing­inn sem er rang­fært, rangtúlkað eða á sér enga stoð í veru­leik­an­um. Umræða á þeim nót­um er hvorki upp­byggi­leg né skyn­sam­leg held­ur bein­lín­is háska­leg!“ seg­ir í Ægir í pistl­in­um.

Þá ger­ir hann að umræðuefni ákvæði samn­ings­ins um breyt­ing­ar á skipta­pró­sentu við fjölg­un eða fækk­un í áhöfn. „For­senda breyt­ing­ar á skipta­pró­sentu er að verðmæti afl­ans auk­ist við fjár­fest­ingu sem farið er í (nýtt skip eða meiri­hátt­ar breyt­ing) og að út­gerð og áhöfn skipti ágóðanum af fjár­fest­ing­unni á milli sín þannig að árs­laun hækki,“ seg­ir hann.

Jafn­framt árétt­ar Ægir að ekki sé verið að end­ur­vekja ný­smíðaákvæði samn­inga og að það falli úr gildi 2031 eins og samið var um í síðustu samn­ing­um.  „Fjár­fest­ing sem slík rétt­læt­ir ekki breyt­ingu á skipta­pró­sentu. Hún þarf að skila auknu afla­verðmæti og hærri laun­um á hlut/​mann á ári. Þannig að, sjó­menn góðir, laun ykk­ar skerðast ekki þótt komi nýr ofn í eld­húsið, nýr flokk­ari á milli­dekkið eða nýtt milli­dekk! Það er al­veg á hreinu.“

Árang­ur á sviði líf­eyr­is­mála stórtíðindi

Ægir full­yrðir að það sé margt í samn­ingn­um sem mun koma sjó­mönn­um til góða á kom­andi árum. Bend­ir hann á hækk­un kaupliða og teng­ingu við launa­hækk­an­ir í al­menn­um kjara­samn­ing­um á ís­lensk­um vinnu­markaði, að hluta­skipta­kerfið sé tryggt óháð verðlags­breyt­ing­um olíu eða annarra orku­gjafa, aukið gagn­sæi í viðskipt­um sem eyk­ur traust milli sjó­manna og út­gerða, að staða og rétt­indi trúnaðarmanna séu treyst og að unnið verði að auknu ör­yggi sjó­manna.

Þá séu ákvæði um líf­eyr­is­mál sjó­manna stórtíðindi að mati hans. „Átaka­efni sjó­manna og út­vegs­manna til margra ára heyr­ir nú sög­unni til. Þeir sem velta því fyr­ir sér í al­vöru að hafna kjara­samn­ingn­um í at­kvæðagreiðslunni stuðla um leið að því að af­sala sjó­mönn­um millj­örðum króna sem ella rynnu inn í líf­eyri­s­kerfi okk­ar á kom­andi árum! Hvaða glóra er nú í því?“

mbl.is