Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir í Morgunblaðinu að ætla megi að verði veiðiheimildir fyrir hundrað þúsund tonn af loðnu bætt við á yfirstandandi vertíð muni það skila þjóðarbúinu um tíu milljörðum króna í útflutningsverðmætum.
Hafrannsóknastofnun tilkynnti í gær að stofnunin muni leggja til að hámarksafli á yfirstandandi loðnuvertíð verði aukinn um að minnsta kosti hundrað þúsund tonn.
Aðeins tvær og hálf til þrjár vikur eru eftir af vertíðinni en Gunnþór kveðst ekki í vafa um að á þeim tíma takist að veiða upp í þann kvóta sem kunni að bætast við. „Við veiðum þetta,“ staðhæfir hann.