Í hjarta Cotswold-þorpsins í Woodmancote á Englandi er að finna skemmtilegt 75 fm sumarhús sem byggt var árið 1906. Eignin hefur hlotið allsherjar yfirhalningu á síðustu árum og verið innréttuð á afar sjarmerandi máta.
Í eigninni mætast iðnaðarstíll og nútímahönnun, en það var arkitektúrsstofan Original House sem sá um hönnun eignarinnar.
Eldhúsinnréttingin hefur verið máluð í djúpum dökkbláum lit sem er áberandi í hönnun eignarinnar. Þar aða uki má sjá skemmtilega útfærslu á veggjum eldhússins þar sem hönnuður hefur leikið sér með mismunandi liti og áferðir.
Í stofunni fær blái liturinn áfram að njóta sín, bæði á veggjum og á glæsilegum flauelsófa. Inn í litapallettuna bætist svo skær appelsínugulur stóll og grænar plöntur, en litirnir tóna allir sérlega vel með hráum viði á veggjunum.
Í svefnherberginu er áfram unnið með skemmtilega liti, en þar hefur verið búið til afar afslappað andrúmsloft með því að mála veggina í mjúkum og hlýjum grábrúnum tón til móts við sterkari liti í húsmunum, eins og gulan og bláan.
Eignina er hægt að leigja út á Airbnb, en þar kostar nóttin 168 bandaríkjadali sem nemur rúmum 24 þúsund krónum á gengi dagsins í dag.