„Við lítum á það þannig að þetta sé aðgreind ganga. Þetta er ný ganga sem ekki hefur verið mæld áður,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, við Morgunblaðið í dag um loðnuna sem mældist norður af Húnaflóa.
Leiddi mælingin til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla á yfirstandandi loðnuvertíð var hækkuð í gær um 184 þúsund tonn.
Guðmundur segir þessa nýju göngu ekki tilefni til að fara í frekari rannsóknir að sinni. „Við teljum okkur hafa náð utan um þetta,“ segir hann en viðurkennir að ekki liggi fyrir nein skýring á þessari göngu. „Í raun ekki. Það er alltaf eitthvað nýtt og alltaf eitthvað öðruvísi með loðnuna milli ára.“