Valentín Lago, fv. forstjóri spænska flugfélagsins Air Europa, mun taka sæti í stjórn flugfélagsins Play á aðalfundi félagsins sem fer fram í næstu viku.
Auður Björk Guðmundsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en hún hefur setið í stjórn félagsins í tvö ár. Lago mun því taka sæti hennar.
Að öðru leyti er sjálfkjörið í stjórn en aðrir stjórnarmenn eru þau Einar Örn Ólafsson (sem er stjórnarformaður), Elías Skúli Skúlason, Guðný Hansdóttir og María Rúnarsdóttir.
Lago hefur rúmlega þrjátíu ára reynslu af rekstri flugfélaga. Hann var framkvæmdastjóri hjá spænska lággjaldafélaginu Iberia Express á árunum 2011-2016, rekstrarstjóri hjá Vueling á árunum 2016-2019 og forstjóri Air Europa á árunum 2021-2022. Lago er menntaður flugvélaverkfræðingur og með doktorsgráðu í hagfræði og rekur í dag sitt eigið ráðgjafafyrirtæki.
Þá kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar að Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fv. þingmaður, sé tilnefndur sem varamaður í stjórn félagsins.