Ég hef aldrei áður verið södd!

Erla Gerður Sveinsdóttir mælir alls ekki með að fólk sem …
Erla Gerður Sveinsdóttir mælir alls ekki með að fólk sem þarf að grenna sig noti lyfin Saxenda og Ozempic, en þau geta hjálpað fólki með sjúkdóminn offitu eða fitubjúg. mbl.is/Ásdís

Læknirinn Erla Gerður Sveinsdóttir hefur sérhæft sig í meðferðum við offitu. Hún segir lyfin Saxenda og Ozempic ekki vera töfralausn fyrir alla sem vilja grennast en virka vel hjá þeim sem þurfa virkilega á þeim að halda.

Fólk verður fyrr satt

„Það er merkilegt að ég er að fá fólk til mín sem hefur tekið þessi lyf og segir hissa: „Er það þetta sem allir eru að tala um! Ég hef aldrei áður verið södd“. Þannig að lyfin gera það að verkum að fólk verður fyrr satt og langar síður í eitthvað að borða. Annað sem lyfið gerir er að jafna blóðsykursveiflur og þá fer minna inn í fituvefinn. Þriðja verkunin er sú að það hægir á meltingunni; maturinn er lengur í maganum og því er maður saddur lengur,“ segir læknirinn Erla Gerður Sveinsdóttir, sérfræðingur í offitumeðferðum. 

„Þá komum við að stærsta punktinum í þessu. Það væri eðlilegt að fólk myndi spyrja sig að því hvort það myndi ekki léttast bara alveg eins með því að borða minna, án lyfsins. Það er ekki þannig, vegna þess að ef að þú borðar minna, minna en líkaminn þarf og vill, þá breytir hann kerfinu sínu og fer í mót­vægisaðgerðir. Þannig að megrun virkar ekki; það er alveg á hreinu. En þegar þú ert á lyfinu gefur það upplýsingar um seddu og leyfir líkamanum að ganga á forðann sinn og sleppir því að fara í þessar mótvægisaðgerðir þyngdarstýrikerfanna,“ segir Erla og segir fólk léttast að ákveðnu marki og viðhalda síðan þyngdinni.

Ævilöng meðferð við offitu

Erla segir að alls ekki eigi að nota lyfin sem megrun því þau séu hugsuð fyrir fólk sem er með röskun á þessum svokölluðu stýrikerfum.

„Þá er lyfið frábær leið til að hjálpa til við að koma þessum kerfum í jafnvægi,“ segir Erla og útskýrir hvað gerist ef fólk notar lyfið í megrunarskyni.

„Líkaminn fer í svelti. Þá hættir líkaminn að hlusta á lyfið og ræsir hungursneyðarvarnarkerfin sem valta yfir lyfin og viðkomandi hættir að léttast. Þannig að ef við setjum þetta lyf í heilbrigðan líkama, þvingum hann í megrun, þá rís líkaminn upp á móti og um leið og fólk hættir á lyfinu stillir líkaminn sig aftur á fitusöfnun og fólk þyngist aftur. Þannig að þetta er ekki megrunarlyf heldur lyf til að lagfæra röskun til að koma líkamanum í eðlilega þyngdarstjórnun aftur.“ 

Ítarlegt viðtal er við Erlu Gerði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: