Vænta má reglugerðar um grásleppuveiðar á morgun

Löndun grásleppu við Reykjavíkurhöfn. Matvælaráðuneytið boðar útgáfu reglugerðar um veiðarnar …
Löndun grásleppu við Reykjavíkurhöfn. Matvælaráðuneytið boðar útgáfu reglugerðar um veiðarnar á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir að reglugerð um grásleppuveiðar ársins verði birt á morgun, að fyrsti veiðidagur verði 20. mars og að upphafsdagar verði á bilinu 20 til 25 talsins.

Þetta kemur fram í svari Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn 200 mílna vegna óánægju grásleppusjómanna með að reglugerðin hafi ekki verið birt. Í gær lýsti Vilhjálmur Ólafsson mikilli gremju vegna þess hve stutt væri til stefnu og að ekki væri vitað hver umgjörð veiðanna myndi verða.

„Drög að grásleppureglugerð voru send til samráðs þann 1. febrúar til LS (Landssambands smábátaeigenda) og Bátafélagsins Ægis í Stykkishólmi. Einnig fengu grásleppusjómenn á Húsavík drögin seinni partinn í febrúar eftir beiðni þar að lútandi,“ segir í svari ráðuneytisins.

Fram kmeur að LS hafi 20. febrúar óskað eftir fundi til að fara yfir tillögur að breytingum á reglugerðinni og að sá fudnur hafi farið fram 23. febrúar. Í framhaldinu hafi ráðuneytið óskað eftir umsögn Fiskistofu.

„Fiskistofa skilaði umsögn 2. mars síðastliðinn. Þann 6. mars var LS upplýst um að upphafsdagur yrði eins og áður hefði komið fram 20. mars og upphafsdagar yrðu á bilinu 20 til 25 talsins. Stefnt er að því að reglugerðin taki gildi á morgun.“

mbl.is