Marsrallið hálfnað

Gullver NS kom til hafnar á þriðjudag og er vorrallið …
Gullver NS kom til hafnar á þriðjudag og er vorrallið hálfnað. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Ómar Bogason

Togarinn Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði á þriðjudagskvöld og hefur hann togað á 71 stöð af þeim 151 sem skipið á að toga á í vorralli eða marsralli Hafrannsóknastofnunar. Aflinn nam 12 tonnum.

„Það er nákvæmlega vika síðan við byrjuðum rallið og nú erum við búnir að toga á 71 stöð af 151 sem okkur er ætlað að toga á. Það er svonefnt norðaustursvæði sem við eigum að gera skil. Við byrjuðum á syðsta hluta svæðisins og vorum komnir norður á Héraðsflóa þegar haldið var í land. Margar þessara stöðva eru á svæðum sem ekki er veitt á,“ segir Þórhallur Jónsson skipstjóri í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

„Segja má að þetta hafi gengið vel og veðrið var hagstætt að tveimur síðustu dögunum undanskildum. Skipið fer út á morgun og þá fer Steinþór Hálfdanarson með það. Það er líklega um það bil vika eftir af rallinu en norður frá er styttra á milli togstöðva og unnt að taka fleiri hol á dag. Gullver mun ljúka rallinu vestur undir Kolbeinsey,“ segir Þórhallur.

mbl.is

Bloggað um fréttina